Ríkis­lög­reglu­stjóri hækkaði við­búnaðar­stig lög­reglu þegar mönnunum tveimur sem grunaðir eru um hryðju­verk var sleppt úr gæslu­varð­haldi. Það kemur fram í til­kynningu frá ríkis­lög­reglu­stjóra og að um tíma­bundna á­kvörðun sé að ræða. Þar kemur einnig fram að við­búnaðar­stigið verði metið reglu­lega.

Á sama tíma og þeir gengu lausir var einnig inn­leitt ný flokkun hættu­stigs og Ís­land sett á þriðja stig af fimm. Sam­kvæmt þriðja stigi er aukin ógn talin vera til staðar hugsan­leg skipu­lagning hryðju­verka. Fyrir 13.desember, þegar mönnunum var sleppt, var hættustig í fyrsta stigi af fjórum.

Áður en mönnunum var sleppt var Ísland í viðbúnaðarstigi A en við erum núna í B. Við­búnaðar­stig A er hefð­bundinn við­búnaður sam­kvæmt verk­lags­reglum ríkis­lög­reglu­stjóra frá 2015 um við­búnaðar­stig lög­reglu en sam­kvæmt á­kvörðun hefur það verið fært upp í við­búnaðar­stig B sem felur í sér aukinn við­búnað vegna öryggis­ógnar. Við­búnaðar­stigin eru fimm, frá A til E.

Sam­kvæmt verk­lagi á við­búnaðar­stigi B hafa sér­sveit ríkis­lög­reglu­stjóra, Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu, greiningar­deild og fjar­skipta­mið­stöð lög­reglu aukið við­bragðs­getu ef til voða­verka kæmi. Þetta felur í sér ein­földun á ýmsum verk­ferlum, nánari sam­vinnu, aukna mönnun og hraðari við­bragðs­getu.

Mynd/Ríkislögreglustjóri

Fimm hættustig í stað fjögurra

Breytingar á hættu­stigum vegna hryðju­verka, ó­tengt þessari hættu þó, má sjá hér að neðan.

Breytingin miðar að því að sam­ræma notkun hættu­stiga á Ís­landi við ná­granna­lönd Ís­lands. Hingað til hefur hér verið notast við fjögurra stiga kvarða en frá og með 13. desember 2022 var tekinn upp nýr fimm stiga kvarði hættu­stiga þar sem lagðar eru sömu for­sendur til grund­vallar mats og í Dan­mörku, Noregi og Sví­þjóð.

Mynd/Ríkislögreglustjóri