Ríkislögreglustjóri hækkaði viðbúnaðarstig lögreglu þegar mönnunum tveimur sem grunaðir eru um hryðjuverk var sleppt úr gæsluvarðhaldi. Það kemur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra og að um tímabundna ákvörðun sé að ræða. Þar kemur einnig fram að viðbúnaðarstigið verði metið reglulega.
Á sama tíma og þeir gengu lausir var einnig innleitt ný flokkun hættustigs og Ísland sett á þriðja stig af fimm. Samkvæmt þriðja stigi er aukin ógn talin vera til staðar hugsanleg skipulagning hryðjuverka. Fyrir 13.desember, þegar mönnunum var sleppt, var hættustig í fyrsta stigi af fjórum.
Áður en mönnunum var sleppt var Ísland í viðbúnaðarstigi A en við erum núna í B. Viðbúnaðarstig A er hefðbundinn viðbúnaður samkvæmt verklagsreglum ríkislögreglustjóra frá 2015 um viðbúnaðarstig lögreglu en samkvæmt ákvörðun hefur það verið fært upp í viðbúnaðarstig B sem felur í sér aukinn viðbúnað vegna öryggisógnar. Viðbúnaðarstigin eru fimm, frá A til E.
Samkvæmt verklagi á viðbúnaðarstigi B hafa sérsveit ríkislögreglustjóra, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, greiningardeild og fjarskiptamiðstöð lögreglu aukið viðbragðsgetu ef til voðaverka kæmi. Þetta felur í sér einföldun á ýmsum verkferlum, nánari samvinnu, aukna mönnun og hraðari viðbragðsgetu.

Fimm hættustig í stað fjögurra
Breytingar á hættustigum vegna hryðjuverka, ótengt þessari hættu þó, má sjá hér að neðan.
Breytingin miðar að því að samræma notkun hættustiga á Íslandi við nágrannalönd Íslands. Hingað til hefur hér verið notast við fjögurra stiga kvarða en frá og með 13. desember 2022 var tekinn upp nýr fimm stiga kvarði hættustiga þar sem lagðar eru sömu forsendur til grundvallar mats og í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
