„Þeir sem eiga hvergi heima geta ekki fylgt fyrirmælum um það að halda sig heima, “ segir Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.

Nú þegar sett hefur verið á samkomubann í landinu sem miðar við tuttugu manns ásamt fjarlægðartakmörkunum milli manna vegna COVID-19 faraldursins segir Hrafnhildur að mikilvægt sé að huga að þeim hópi sem nýtir sér gisti- og neyðarskýli borgarinnar. Þá segir hún starfshætti hjá borginni breytta vegna faraldursins.

„Þessir menn eru margir í áhættuhópi, sumir eru mjög líkamlega veikir og slappir, þannig að við erum með öðruvísi þjónustu í gistiskýlinu á Lindargötu núna,“ segir Hrafnhildur. Þar er nú opið allan daginn hefur rúmum þar verið fækkað. Þar eru nú sjö menn sem eru í áhættuhópi vegna COVID-19, fjórir þeirra eru með miklar hjúkrunarþarfir. Vanalega nýta um 15-18 manns gistiskýlið á Lindargötu og hefur þeim sem ekki eru í áhættuhópi verið tryggð gisting í neyðarskýlinu sem staðsett er úti á Granda.

Starfsemi neyðarskýlisins gat ekki uppfyllt kröfur um tveggja metra fjarlægð á milli manna svo húsnæðið við hlið þess hefur verið tekið á leigu. „Þar erum við með allt annan hóp af mönnum og þeir eru ekki í áhættuhópi,“ segir Hrafnhildur og bætir við að ef hertari fjöldatakmarkannir verði settar á þurfi að huga að öðrum leiðum til að veita fólki aðstoð.

,,Þá þurfum við kannski að huga að því að opna skóla eða íþróttahús til að tryggja fólki húsaskjól. Ég hef líka áhyggjur af konunum sem nýta Konukot, þar eru enn minni möguleikar á nálægðartakmörkunum,“ segir Hrafnhildur.