Í dag taka gildi tvær nýjar reglu­gerðir heil­brigðis­ráð­herra um sam­komu­tak­markanir, annars vegar innan­lands og hins vegar í skóla­starfi. Reglurnar gilda í alls þrjár vikur, eða til og með 17. mars.

Tals­verðar til­slakanir er að finna í reglunum miðað við það sem hefur verið síðan í októ­ber en nú mega 50 manns koma saman í rými. Tveggja metra reglan er þó enn í gildi og grímu­notkun ef hana er ekki hægt að tryggja.

Þá verður heimilt sam­kvæmt nýju reglunum að hafa að há­marki 200 við­skipta­vini í verslunum, á söfnum, í kirkjum og á til­teknum við­burðum. Sund- og bað­stöðum og skíða­svæðum verður heimilt að taka á móti 75 prósent af leyfi­legum há­marks­fjölda gesta í stað 50 prósent eins og það hefur verið frá því að þar opnaði aftur. Það sama gildir um líkams­ræktar­stöðvar en þó er ó­heimilt að hafa fleiri en 50 í einu rými.

Þá er nú loks í lagi að hafa á­horf­endur á í­þrótta­við­burðum.

Fjölda­tak­markanir fara úr 20 manns í 50 en með undan­tekningum sem má sjá hér að neðan:

Söfn og verslanir: Við­skipta­vinir mega vera allt að 200 í stað 150 áður, að upp­fylltum skil­yrðum reglu­gerðarinnar um fer­metra­fjölda. Á­fram gilda 2 metra ná­lægðar­mörk og grímu­skylda.

Við­burðir þar sem gestir sitja: Allt að 200 manns mega vera við­staddir at­hafnir trú- og lífs­skoðunar­fé­laga, sviðs­listar- menningar- og í­þrótta­við­burði, ráð­stefnur, fyrir­lestra og sam­bæri­lega við­burði að upp­fylltum öllum eftir­töldum skil­yrðum.

Heimiluð nándar­mörk milli ó­tengdra aðila eru nú 1 metri, að upp­fylltum skil­yrðum.

Gestir mega ekki sitja and­spænis hver öðrum nema meira en tveir metrar séu á milli þeirra.

Þátt­taka allra gesta skal skráð þar sem fram kemur nafn, kenni­tala og síma­númer.

Allir skulu nota and­lits­grímu og tryggt að fjar­lægð milli ó­tengdra aðila sé meiri en 1 metri.

Heimilt er að hafa hlé á sýningum en á­fengis­veitingar og á­fengis­sala á við­burðum er ó­heimil.

Koma skal í veg fyrir hópa­myndanir, jafnt fyrir og eftir við­burð og í hléi.

Ath! Ef ekki er hægt að upp­fylla eitt­hvert framan­talinna skil­yrða gildir reglan um 50 manna há­marks­fjölda á við­burðinum.

Á­horf­endur á í­þrótta­við­burðum: Heimilt er að hafa á­horf­endur á í­þrótta­við­burðum. Á­horf­endur mega vera allt að 200 manns að því gefnu að hægt sé að upp­fylla öll skil­yrði hér að framan um við­burði þar sem gestir sitja. Ef á­horf­endur eru standandi gildir regla um 50 manna há­marks­fjölda.

Sund- og bað­staðir: Gestir mega vera 75% af leyfi­legum há­marks­fjölda.

Heilsu- og líkams­ræktar­stöðvar: Gestir mega vera 75% af leyfi­legum há­marks­fjölda. Í hverju rými mega nú að há­marki vera 50 manns.

Skíða­svæði: Heimilt er að taka á móti 75% af há­marks­fjölda af mót­töku­getu hvers svæðis.

Veitinga­staðir þar sem heimilaðar eru á­fengis­veitingar: Leyfi­legur há­marks­fjöldi í rými verður 50 manns. Heimilt er að taka á móti nýjum við­skipta­vinum til kl. 22.00 en þeir skulu allir hafa yfir­gefið staðinn fyrir kl. 23.00.

Reglu­gerð um skóla­hald

Í dag taka einnig gildi tals­verðar til­slakanir á öllum skóla­stigum. Al­mennt er nú heimilaður há­marks­fjöldi nem­enda 150 í hverju rými og blöndun milli sótt­varna­hólfa heimil á öllum skóla­stigum, líka í há­skólum. Reglurnar gilda þar til í vor, eða til og með 30. apríl.

Regla um nándar­mörk verður 1 metri í stað tveggja og gildir það jafnt milli nem­enda og starfs­fólks. Að­eins þarf að bera grímur ef ekki er unnt að virða 1 metra regluna. Á öllum skóla­stigum öðrum en á há­skóla­stigi verður for­eldrum, að­stand­endum og öðrum utan­að­komandi heimilt að koma inn í skóla­byggingar, að upp­fylltum reglum um sótt­varnir.

Líkt og áður gilda engar fjölda­tak­markanir um nem­endur í leik­skólum, þeir eru undan­skildir reglum um fjar­lægðar­mörk og reglum um grímu­notkun. Í grunn­skólum verður heimilt að hafa 150 nem­endur í hverju rými en líkt og áður eru nem­endur í 1. til 10. bekk undan­skildir reglum um fjar­lægðar­mörk og reglum um grímu­notkun.

Reglur tón­listar­skóla taka mið af sam­bæri­legum skóla­stigum.

Við­burðir tengdir fé­lags­starfi í leik- grunn- og fram­halds­skólum og í tón­listar­skólum verða heimilir í skóla­byggingum með þeim fjölda og ná­lægðar­tak­mörkunum sem gilda á við­komandi skóla­stigi en að­eins þar sem gestir sitja. Við­burðirnir mega fara fram innan bygginga skólans og um þá gilda al­mennar reglur um sam­komu­tak­markanir.

Hægt er að kynna sér reglurnar nánar á vef heil­brigðis­ráðu­neytisins.