Sóttvarnaryfirvöld munu líklega mæla með almennri bólusetningu fyrir ungmenni á aldrinum tólf til fimmtán ára en þetta segir Kamilla Sigríður Jónsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, í samtali við Fréttablaðið.

Að sögn Kamillu er staðan breytt frá því í vor, þegar ákveðið var að bólusetja ekki þann hóp nema í undantekningartilfellum, svo sem þegar um börn með undirliggjandi sjúkdóma er að ræða eða í þeim tilfellum þar sem fjölskyldan óskar sérstaklega eftir bólusetningu.

„Það er bara breytt staða hjá okkur þannig við munum sennilega mæla með almennri bólusetningu 12 til 15 ára barna,“ segir Kamilla. Í Evrópu er búið að skrá bæði bóluefni Pfizer og bóluefni Moderna fyrir aldurshópinn og því væri hægt að bólusetja með þeim bóluefnum.

Ýmislegt sem þarf að hafa í huga

Kamilla bendir þó á að það þurfi að skoða framkvæmdina sérstaklega þar sem ekki er hægt að fara í „Laugardalshallarbólusetningar“ með þennan aldurshóp. Líklega verður þó um að ræða hópabólusetningar af einhverju tagi, frekar en að pantaðir séu einstaklingstímar á heilsugæslu.

Hún vísar til þess að ungmenni þyrftu eflaust frekari stuðning, til að mynda frá foreldrum. „Þó að mörg þeirra myndu eflaust vilja bólusetninguna, og þetta yrði ekkert mál, þá er samt hærra hlutfall sem að þyrfti mögulega aðeins meiri stuðning en fullorðinn einstaklingur sem kemur sjálfur,“ segir Kamilla.

„Við vitum það til að mynda varðandi HPV bólusetningar að það er svona hættara við að unglingar falli í yfirlið eftir bólusetningu heldur en aðrir aldurshópar. Þannig það eru svona ýmsar ástæður fyrir því að það þarf að passa að aðstæður séu viðeigandi fyrir þessar bólusetningar,“ segir Kamilla.

„Heilsugæslan þarf að setja niður fyrir sig hvernig þau vilja hafa bólusetningarnar og það er ekki víst að það verði eins á Akureyri og Bolungarvík og Reykjavík, það þarf að skoða aðstæður á hverjum stað,“ segir Kamilla. „Það er svona ýmislegt sem þarf að fara yfir og hvernig það er best að haga þessu svo þetta sé sem þægilegast.“