Fram til þessa hefur Frétta­blaðinu verið dreift inn á heimili íbúa á höfuð­borgar­svæðinu og á Akur­eyri en því verður nú hætt. Blaðið verður þess í stað að­gengi­legt á yfir 120 fjöl­förnum stöðum á höfuð­borgar­svæðinu, á Suður­nesjum, Ár­borg, Ölfusi, Akra­nesi, Borgar­nesi, Akur­eyri og víðar. Á­fram verður unnið að frekari dreifingu blaðsins. Þá hefur sá fjöldi sem les blaðið dag­lega á raf­rænu formi, ýmist í appi eða á pdf-formi, vaxið jafnt og þétt. Ekki er búist við að breytt dreifing muni hafa teljandi á­hrif á lestur blaðsins.

„Í upp­hafi komust stofn­endur Frétta­blaðsins að þeirri niður­stöðu að dreifa yrði blaðinu í heima­hús því hér á landi væri fjöl­förnum stöðum á borð við það sem menn þekkja frá öðrum löndum, ekki til að dreifa. Nú hafa ýmsar breytingar orðið á sam­fé­lags­legum háttum þannig að fjöldi fólks kemur oft í viku í verslanir stór­markaða, verslana­mið­stöðvar, þjónustu­stöðvar olíu­fé­laga, sund- og í­þrótta­mið­stöðvar og svo mætti lengi telja,“ segir Jón Þóris­son, for­stjóri Torgs út­gáfu­fé­lags Frétta­blaðsins og annarra miðla, svo sem DV, Hring­brautar og fretta­bladid.is.

Jón Þórisson, forstjóri Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins.
Mynd/Anton Brink

„Á­stæða þessarar breytingar er marg­þætt. Í fyrsta lagi höfum við hjá Torgi haft vaxandi á­hyggjur af því að dreifing blaðsins væri ekki í sam­ræmi við þau mark­mið sem við höfum gengið út frá og að dreifingar­ferlinu fylgdi ó­þarfa sóun. Það er í takti við vaxandi um­hverfis­vitund að lág­marka kol­efnis­spor í okkar starf­semi. Við bætist svo að dreifing blaðs til tug­þúsunda heimila er ó­hemju kostnaðar­söm og reikna má með að kostnaður á ný­byrjuðu ári hefði orðið yfir einn milljarður króna,“ segir Jón.

Sam­kvæmt viður­kenndum könnunum er lestur Frétta­blaðsins nú yfir 28 prósent meðal lands­manna en mælist 35 prósent á höfuð­borgar­svæðinu.

„Þetta er ein­stök staða á heims­vísu,“ segir Jón. „Lesturinn hefur vaxið undan­farna mánuði í kjöl­far þess að við hófum að dreifa blaðinu á fjöl­förnum stöðum. Það er engin á­stæða til að ætla annað en lesturinn gæti orðið að minnsta kosti sam­bæri­legur eftir þessa breytingu. Þessi breytta dreifing tryggir snerti­flöt við yfir 85 prósent lands­manna.“

Jón segir að full­reynt hafi verið að breyta dreifingar­samningi við Póst­dreifingu, sem dreift hefur blaðinu um ára­bil.

„Þessi samningur var þegar í gildi þegar nú­verandi eig­endur komu að fé­laginu og þrátt fyrir marg­í­trekaðar til­raunir reyndist ekki flötur á að semja um að losna undan þeirri skuld­bindingu. Þannig var allt svig­rúm í út­gáfunni fjar­lægt, ein­taka­fjöldi fast­settur sem og fjöldi út­gáfu­daga og ekki mögu­legt að koma til móts við um­hverfis­sjónar­mið og sporna við sóun. Því er ekki að leyna að um eins milljarðs króna ár­legur dreifingar­kostnaður var þung­bær fyrir reksturinn,“ segir Jón.

„Rit­stjórn Frétta­blaðsins heldur ó­trauð á­fram að þjóna les­endum í sam­ræmi við stefnu blaðsins og mega þeir að auki búast við ýmsum nýjungum. Þessi breyting er gerð til að styrkja og tryggja þjónustu blaðsins sem eftir sem áður er les­endum að kostnaðar­lausu, eins og verið hefur í rúm­lega tvo ára­tugi.“

Fréttablaðið liggur nú frammi á fyrrgreindum svæðum í verslunum Bónuss, Nettó, Hagkaups, Iceland, Fjarðarkaupum, Húsasmiðjunnar, Eymundsson, Melabúðinni, N1, Olís, Kringlunni, Firði, sundstöðum, World Class, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, dvalarheimilum aldraðra, sjúkrahúsum, og Reykjavíkurflugvelli. Unnið verður áfram að útbreiðslu blaðsins á sambærilegum stöðum.

Eins og fyrr greinir er það einnig aðgengilegt á frettabladid.is í pdf-formi og í appi sem sækja má í alla Samsung og iPhone snjallsíma.