Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson, funda í dag um mögulega stjórnarmyndun. Þetta sögðu formennirnir í Sprengisandi og í Silfrinu í morgun. Sigurður Ingi og Bjarni segja breytt hlutfall flokkana hafa áhrif á samtal þeirra.

Ríkisstjórnin heldur velli samkvæmt lokatölum úr öllum kjördæmum sem birtust í morgun, með 37 þingmenn af 63 en var áður með 33 þingmenn.

Framsókn stendur undir nafni og bætir við sig fimm þingmönnum, Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað sem stærsti flokkurinn á þingi og Vinstri græn fara úr 11 þingmönnum niður í 8, en þar af sögðu tveir sig úr flokknum á kjörtímabilinu.

Katrín segir gott „chemistry“ milli stjórnarflokkanna og traust.
Fréttablaðið/Anton Brink

Katrín sagði í morgun að forysta flokkana muni örugglega hittast í dag. Hún segir að þrátt fyrir að hafa tapað þingmanni sé hún ánægð með áframhaldandi stöðu VG sem stærsti félagshyggjuflokkur á Íslandi.

„Við erum stærsti vinstri flokkurinn þrátt fyrir árásir á öllu kjörtímabilinu frá bæði hægri og vinstri,“ sagði hún í Sprengisandi í morgun. Segir hún það alltaf hafa legið fyrir að ræða við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn eftir kosningar.

„Það hefur allt legið fyrir. Ef við fengum meirihluta myndum við tala saman,“ sagði Katrín.

Inga telur að Sigurður Ingi muni sækjast eftir forsætisráðherraembættinu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sigurður Ingi Jóhannsson segist ofsakátur og hoppandi glaður með niðurstöðurnar en Framsókn bætir við sig fimm þingmönnum. Miðjan hafi unnið mikinn sigur að hans mati.

Hann segir breytt hlutfall stjórnarflokkanna hafa áhrif á næstu skref.

„Eðlilegasti hlutur að við þrjú setjumst niður. Það er ekki sama hlutfall milli flokkanna og auðvitað hefur það áhrif. Við fundum leið síðast og það er eðlilegast að við gerum það aftur.“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í Silfrinu að einsýnt væri að Sigurður Ingi skylmist við Katrínu um forsætisráðherrastólinn.

Formenn flokkanna í Silfrinu í morgun.
Fréttablaðið/Anton Brink

Bjarni Benediktsson segir sömuleiðis að minnkandi hluti VG hafi áhrif á samtal stjórnarflokkanna.

„Það er eitthvað fyrir okkur að finna út úr og það kallar á málamiðlanir. Þetta var ekki auðvelt á þessu kjörtímabili, við þurftum oft að leysa úr ágreiningi og tókum langa fundi og boðuðum stundum alla þingflokkana saman og sátum yfir þessu,“ lýsi Bjarni í Sprengisandi.

Hann segir flokkana hafa fundið leiðir áður og geti gert það aftur. „Mér finnst við hafa skyldu að sýna þessi þroskuðu vinnubrögð áfram.“

Í Silfrinu á RÚV sagðist hann ekki ætla að kalla eftir forsætisráðherrasætinu.