Jón Steinar Gunn­laugs­son, lög­maður og fyrr­verandi hæsta­réttar­dómari, segir orð formanns Dómara­fé­lags Ís­lands um að allir dómar Lands­réttar gætu verið í upp­námi komist Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu að þeirri niður­stöðu að dómarar við réttinn hafi verið rang­lega skipaðir, vera stað­leysu.

Orðin lét for­maðurinn, Kjartan Bjarni Björg­vins­son, falla í út­varps­þættinum Sprengi­sandi í morgun. Þar sagði hann að þó að dómur MDE hefði ekki bein réttar­á­hrif hér á landi þá hefði Hæsti­réttur um langt skeið fylgt dómum sem þessum.

Dómarnir full­gildir

„Þetta er bara stað­leysa að mínu mati, ekkert annað,“ segir Jón Steinar í sam­tali við Frétta­blaðið. Niður­staða MDE muni ekki hafa nein á­hrif á ís­lenska dóm­stóla eða ís­lensk lög og að dómar Lands­réttar muni standa.

„Þeir er alveg full­gildir.“

Hann segir að engin mis­tök hafi verið gerð við skipan dómaranna.

„Einu mis­tökin sem hafa verið gerð í þessu er að láta þessa fjóra dómara fara í eitt­hvað starfs­leyfi þegar dómurinn úti . Það er alveg furðu­legt að gera það.“

Dómar MDE hafa haft góð á­hrif

Þó að margir úr­skurðir Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu hafi haft heil­mikla þýðingu fyrir Ís­lendinga sé það alveg skýrt í ís­lenskum lögum um mann­réttinda­sátt­málann að dómar hans hafi ekki bindandi réttar­á­hrif hér á landi. Úr­skurðir hans séu á­bendingar um það hvað betur megi fara í ís­lenskri lög­gjöf.

„Dómar hafa fallið þarna ytra sem haft góð á­hrif á lög­gjöf hér heima. En kjarni málsins er sá að það eru á­hrif sem lög­gjafinn tekur til at­hugunar,“ segir Jón. Ís­lendingar eigi að taka fullt til­lit til þess en hvorki eigi né þurfi að fylgja úr­skurðum MDE um­hugsunar­laust.

„Það er alveg skýrt í ís­lensku lögunum sem voru sett þar sem mann­réttinda­sátt­málinn var festur í ís­lensk lög að dómarnir þarna þeir hafa ekki bindandi á­hrif hér á landi. Ef að menn tala svona þá spyr ég bara: kunna menn ekki að lesa? Þetta er alveg skýrt í texta laganna.“

Dómarar hafa stjórnar­skrár­varinn rétt

Eitt af því sem Kjartan Björn talaði um í Sprengi­sandi var að erfitt yrði fyrir ís­lenska ríkið að leysa þá stöðu sem upp væri komin ef að dóm­stólinn kemst að þeirri niður­stöðu að dómararnir hafi verið rang­lega skipaðir. Jón Steinar tekur undir að ef stjórn­völd ætli að fara eftir þeim dómi verði staðan erfið, enda njóti dómarar stjórnar­skrár­verndar.

„Það eru á­kvæði um starfs­öryggi dómara og það er ekki hægt að víkja dómurum sem hafa verið skipaðir í em­bætti úr em­bættum þó belja prumpi í Evrópu. Það breytir engu, við erum með ís­lensk lög hérna innan­lands og við verðum að hlýta þeim og fara eftir þeim.“

Uppfært klukkan 22:38

Kjartan Bjarni Björgvinsson hafnar því að hafa sagt að allir dómar Landsréttar væru í uppnámi, komist Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að skipan dómara við réttinn væru ólöglegar. Svar hans í Sprengisandi hafi einungis falið í sér að tilefni væri til þess að hafa áhyggjur kæmist dómurinn að þeirri niðurstöðu.