Breytingarnar sem Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, lagði til í nýjasta minnisblaði sínu og voru samþykktar á ríkisstjórnarfundi í morgun munu líklega auka smit í skólum og hjá fjölskyldum barna á leik- og grunnskólaaldri.

Þetta kemur fram í minnisblaði Þórólfs sem hann sendi á Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Í minnisblaðinu segir Þórólfur einnig að komandi tilslakanir á ýmsum samfélagslegum aðgerðum muni að líkindum leiða til fjölgunar smita í eldri aldurshópum, mikilvægt sé að sú fjölgun leiði ekki til fjölgunar á alvarlegum veikindum og spítalainnlagna.

Ríkisstjórnin tilkynnti í morgun breytingar á sóttkví sem taka í gildi á miðnætti í dag og boðaði jafnframt afléttingar á sóttvarnaaðgerðum í lok vikunnar.

Samkvæmt Þórólfi er Omíkrón-afbrigðið ráðandi í þeim mikla fjölda smita og greinist hjá rúmlega 90 prósentum og að Delta-afbrigðið greinist hjá tæplega tíu prósentum.

Þá séu flest smit sem greinast í samfélaginu hjá börnum á grunnskólaaldri og hjá van- eða óbólusettum fullorðnum. Vanbólusettir séu þeir sem einungis hafi þegið eina sprautu.

Brýnt sé að einfalda allt fyrirkomulag sem varðar sóttkví, smitgát, sýnatökur og greiningu Covid-19 segir Þórólfur jafnframt í minnisblaði sínu til Willums.

Að sögn Þórólfs er réttast að hefja afléttingar með því að einfalda ýmsar leiðbeiningar um sóttvarnaaðgerðir en mikilvægt sé að létta í hægum en öruggum skrefum. Í minnisblaði sínu lagði Þórólfur áherslu á að einfalda reglur um sóttkví og smitgát og á asama tíma draga úr PCR sýnatökum. Þannig muni létta á mörgum takmörkunum sem nú hvíli á einstaklingum, fjölskyldum, fyrirtækjum og ýmissi starfsemi.

Á sama tíma muni þó tölulegar upplýsingar um samfélagsleg smit verða ónákvæmari en áður og líklegt að þeim muni fjölga. Því þurfi að hafa gott eftirlit með alvarlegum veikindum og innlögnum á sjúkrahús vegna Covid-19. Ef það gerist þurfi stjórnvöld að vera tilbúin að grípa til mótvægisaðgerða.

Nánar er hægt að lesa um tillögur Þórólfs hér.