Megintillaga frumvarps landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um breytingar á búvörulögum, sem nú er til meðferðar á Alþingi, er að hverfa frá svokölluðu jafnvægisútboði við úthlutun tollkvóta fyrir búvörur, sem samið hefur verið um í alþjóðasamningum. Þá skal taka tímabundið upp fyrri útboðsaðferð, þar sem tollkvótar eru seldir hæstbjóðanda.

Félag atvinnurekenda (FA) og Samkeppniseftirlitið eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt þær breytingar. Heillavænlegra væri að þeirra mati að fara í almennar aðgerðir til þess að styrkja matvælaframleiðslu hér á landi í stað þess að fara í samkeppnishamlandi aðgerðir. Útboðsgjaldið sé verndaraðgerð fyrir matvælaframleiðendur sem muni leiða til þess að verð á afurðum til neytenda hækki.

„Við höfum fullan skilning á því að innlend matvælaframleiðsla hafi tekið högg vegna faraldursins, eins og svo margar atvinnugreinar, og það þurfi að bregðast við því með einhverjum almennum aðgerðum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Hann segir öfugsnúið að grípa til samkeppnishamlandi aðgerða sem leiði til hærra vöruverðs nú þegar 25 þúsund manns þiggi atvinnuleysisbætur. „Og þykir matar­karfan líklega alveg nógu há fyrir.“
Ólafur segir að með því að neita óskum um að dreifa tollkvóta á lengra tímabil eða skila honum gegn endurgreiðslu hafi atvinnuvegaráðuneytið stuðlað að því að innflutningur búvara á tollkvótum sé óbreyttur á sama tíma og eftirspurn dregst saman. „Það er afskaplega kaldhæðnislegt að landbúnaðarráðherra skuli nú leggja fram frumvarp til að leysa úr meintu vandamáli sem hann átti sjálfur þátt í að búa til,“ segir Ólafur.

FA telur að uppboð á tollkvóta gangi gegn markmiðum þeirra alþjóðasamninga sem gerðir eru um gagnkvæman markaðsaðgang í formi tollkvóta. Jafnvægisútboð sé þó skárra en fyrra kerfi.

Innfluttar vörur muni hækka í verði og í skjóli þeirrar hækkunar verði auðveldara fyrir innlenda framleiðendur að halda uppi verði.

Samkeppniseftirlitið tekur í sama streng en í umsögn þess um frumvarpið segir að það feli í sér frávik frá þeirri stefnumörkun sem stjórnvöld flestra ríkja og fjöldi fræðimanna séu sammála um, að efnahagsáföllum skuli jafnan mætt með aukinni samkeppni. Tillögur frumvarpsins feli ekki í sér neina tryggingu fyrir því að hagur bænda vænkist, nái þær fram að ganga.