Bankaráð Landsbankans segir í tilkynningu að gagnrýni á hækkun launa bankastjóra Landsbankans sé skiljanleg. Í tilkynningunni segir einnig að bankaráð sé meðvitað um að kjör bankastjóra séu „vissulega góð“ og að þau séu í samræmi við starfskjarastefnu bankans, sem hluthafar hafi samþykkt, þar sem segir að kjörin eigi að vera samkeppnishæf en ekki leiðandi á markaði. 

Þar segir enn fremur að mati bankaráðsins hafi lengi verið ljóst að breyta þurfi kjörum bankastjóra Landsbankans og fær þeim nær þeim kjörum sem kveðið er um í starfskjarastefnunni. Frá því að laun bankastjóra voru færð undir kjararáð hafi launin verið hækkuð tvisvar. Við þá ákvörðun hafi verið ljóst að launin voru lægri en laun æðstu stjórnenda hjá öðrum stórum fjármálafyrirtækjum. 

Í tilkynningu bankaráðs Landsbankans er farið yfir forsögu málsins um að kjararáði hafi verið falið að úrskurða um launin árið 2009 og tekið fram að á sama tíma hafi verið tekið fram í eigendastefnu ríkisins að laun stjórnenda ættu að standast samanburð á þeim sviðum sem fyrirtækið starfaði á, án þess þó að vera leiðandi. 

Sú tilhögun hafi verið gagnrýnd af þáverandi bankaráði Landsbankans en að beiðnir þeirra til stjórnvalda hafi ekki náð fram að ganga. Sem afleiðing af því hafi kjör bankastjórans í Landsbankanum í mörg ár verið töluvert lægri en hjá stjórnendum sambærilegra fyrirtækja og lægri en kjör framkvæmdastjóra bankans. 

Segir að lokum að þær breytingar sem bankaráð hafi nú gert á kjörum bankastjórans séu í samræmi við starfskjarastefnu bankans sem hluthafar hafi samþykkt og hafi verið óbreytt í mörg ár. 

Greint var frá því í Fréttablaðinu um helgina að þann 1. apríl 2018 voru mánaðarlaun bankastjóra Landsbankans hækkuð um 550 þúsund krónur. Tíu mánuðum áður höfðu þau verið hækkuð um 1,2 milljónir. Eru nú 3,8 milljónir. Bankaráð segir þau nú nær því að vera samkeppnishæf.

Frá bankaráði Landsbankans vegna umræðu um laun bankastjóra

Hækkun á launum bankastjóra Landsbankans hefur verið gagnrýnd. Sú gagnrýni er skiljanleg, enda er Landsbankinn að langstærstu leyti í eigu ríkisins. Undanfarna daga hefur launahækkunin verið sett í samhengi við almennar umræður um kjaramál. Bankaráð er meðvitað um að kjör bankastjóra eru vissulega góð en þau eru í samræmi við starfskjarastefnu bankans, sem hluthafar hafa samþykkt, um að starfskjör eigi að vera samkeppnishæf en þó ekki leiðandi.

 Að mati bankaráðs hefur lengi verið ljóst að breyta þyrfti kjörum bankastjóra Landsbankans og færa þau nær þeim kjörum sem starfskjarastefnan kveður á um. Þegar ákvörðun um laun bankastjóra Landsbankans og fleiri stjórnenda voru færð undan kjararáði með lögum sem Alþingi samþykkti, hafa laun bankastjóra Landsbankans hækkað tvívegis, annars vegar frá 1. júlí 2017 og hins vegar frá 1. apríl 2018. Við þá ákvörðun var ljóst að launin voru lægri en laun æðstu stjórnenda hjá öðrum stórum fjármálafyrirtækjum.

 Forsagan er sú að kjararáði var árið 2009 falið að úrskurða um laun bankastjóra Landsbankans. Á sama tíma sagði í eigendastefnu ríkisins að laun stjórnenda ættu að standast samanburð á þeim sviðum sem viðkomandi fyrirtæki starfaði á, án þess að vera leiðandi. Þessi tilhögun var gagnrýnd af þáverandi bankaráði Landsbankans en beiðnir til stjórnvalda um breytingar náðu ekki fram að ganga. Afleiðingin varð sú að í mörg ár voru kjör bankastjóra Landsbankans töluvert lægri en laun hjá stjórnendum sambærilegra fyrirtækja. Þau voru jafnframt lægri en laun framkvæmdastjóra hjá Landsbankanum. Þær breytingar sem bankaráð hefur nú gert á kjörum bankastjóra Landsbankans eru í samræmi við starfskjarastefnu bankans sem hluthafar hafa samþykkt og hefur verið óbreytt í mörg ár.