Eftirlits- og stjórnskipunarnefnd Alþingis er með skýrslu ríkisendurskoðunar um innheimtu dómsekta til umfjöllunar og á Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, von á að niðurstaða nefndarinnar verði að taka undir tilmæli Ríkisendurskoðunar um að dómsmálaráðuneytið bregðist við sem allra fyrst.

„Eins og lesa má í skýrslunni þá hefur margsinnis verið bent á þetta. Mér heyrist flestir vera sammála um það að það þurfi að taka þessi mál föstum tökum,“ segir Þórunn jafnframt.

Í skýrslunni kom fram að álagðar dómsektir sem námu tíu milljónum króna eða meira á tímabilinu 2014 til 2018 hafi í árslok 2021 aðeins verið greiddar í 2,2 prósent tilfella. Innheimtuhlutfallið sé mun lægra hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

Sektirnar námu um 5,7 milljörðum króna og því hægt að áætla að rétt rúmlega hundrað milljónir króna hafi verið greiddar.

Fyrningar og afskriftir

Í skýrslunni segir jafnframt að í 41 prósent tilvika hafi vararefsingu beitt. Vararefsing í formi samfélagsþjónustu hafi verið beitt í 38,7 prósent tilvika en aðeins 2,3 prósent í formi fangelsisvistar. Þá hafi fyrningar og afskriftir dómsekta einnig verið verulegar en yfir tímabilið 2014 til 2021 hafi samtals 1,341 milljarður króna verið afskrifaðar.

Eftirlits- og stjórnskipunarnefnd fékk gesti á fund nefndarinnar í gær vegna skýrslunnar, sýslumanninn á Norðurlandi vestra sem sér um innheimtuna og fulltrúa fá fangelsismálastofnun. „Hvoru tveggja er auðvitað lykilfólk í innheimtu dómsekta og auðvitað líka í ákvörðunum um fullnustu refsinga sem er þá í höndum fangelsismálastofnunar,“ segir Þórunn.

Vilji þingsins komi í ljós

Aðspurð hvort hún sé bjartsýn á að innheimta dómsekta muni taka breytingum segir Þórunn fulla ástæðu til að vonast til þess.

„Við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd munum skrifa álit um þessa skýrslu og síðan að beina athugasemdum og tilmælum í réttan farveg og það getur meira en verið að það þurfi í framhaldinu að leggja til lagabreytingar eða annað slíkt og þá kemur auðvitað í ljós hvers er vilji þingsins í þessu máli,“ segir Þórunn að síðustu.