Frans páfi sam­þykkti ný­lega að breyta orða­lagi Faðir vorsins. Breytingin er á orða­laginu sem þýtt hefur verið á ís­lensku í „Eigi leið þú oss í freistni“ sem nú mun verða nærri, í þýðingu blaða­manns: „Ekki leyfa okkur að falla í freistni“.

Breytingin var sam­þykkt á alls­herjar­þingi kaþólskra biskupa á Ítalíu í síðasta mánuði og mun birtast í þriðju út­gáfu Messa­le Roma­no sem inni­heldur leið­beinandi texta fyrir kaþólikka um allan heim.

Páfinn sagði árið 2017 að hann telji að það ætti að breyta orða­laginu. „Þetta er ekki góð þýðing því það er talað um Guð sem leiðir í freistni,“ sagði páfinn þá í við­tali við ítalska sjón­varps­stöð, og bætti við „Ég er sá sem fell. Það er ekki hann sem ýtir mér í freistni til að sjá hvernig ég hef fallið.“

Frans páfi sagði að faðir geri ekki slíkt, heldur hjálpi manni að standa upp um leið og maður fellur. „Það er Satan sem leiðir okkur í freistni, það er hans deild,“ sagði páfinn árið 2017.

Hefur engin áhrif á íslensku þýðinguna

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá séra Jakobi Rollard, kanslara Kaþólsku kirkjunnar á Ís­landi og presti í Landa­kots­kirkju í Reykja­vík, hefur breyting páfa ekki nein á­hrif á ís­lenska þýðingu bænarinnar.

„Það sem páfi gerði snertir að­eins ítölsku þýðinguna. Hann var ekki a breyta Faðir­vorinu þannig en hann lét breyta ítölsku þýðingunni. Það var gert í Frakk­landi fyrir tveimur árum,“ segir Jakob

Hann segir að slíkar breytingar hafi áður átt sér stað og sem dæmi segir hann að hann hafi upp­lifað þrjár út­gáfur Faðir vorsins á frönsku, en Jakob er upp­runa­lega frá Frakk­landi.

„Þetta er eitt­hvað sem gerist af og til. Hvað varðar ítölsku þýðinguna þá hefur það engin á­hrif á okkur,“ segir Jakob

Jakob Rollard er kanslara Kaþólsku kirkjunnar á Ís­landi og prestur í Landa­kots­kirkju
Fréttablaðið/Hari

Biblíufræðingar séu ekki sammála

Hann segir að það séu þó alltaf uppi ein­hverjar raddir sem efist um að það eigi að segja „Eigi leið þú oss í freistni“ því orða­lagið sé tor­skilið fyrir yngra fólk og hvort það sé ná­kvæm­lega rétt þýðing. Það séu skiptar skoðanir á því.

Hann segir að sumir vilja þýða setninguna sem „Og leið þú oss í freistni“ og segir að þá mætti skilja hana þannig að þá myndi Guð leiða fólk í freistni en á sama tíma myndu þau fá leið­sögn í gegnum það eða frá því að falla í freistni

„Biblíu­fræðingar eru ekki á einu máli með þetta,“ segir séra Jakob og í­trekar: „Við erum ekki að pæla í neinum breytingum á Faðir vorinu að svo stöddu.“

Hunsi að Guð vinni stundum með Satan

Í um­fjöllun Guar­dian um málið segir að sam­kvæmt biblíunni hafi Jesú kennt læri­sveinum sínum orðin að bæninni þegar þeir spurðu hann hvernig þeir ættu að biðja.

Þar segir einnig að ein­hverjir hafi lýst yfir á­hyggjum af orða­breytingunni og segja að með því að breyta henni sé hunsað að öllu leyti hvernig Guð stundum vinnur með djöflinum í að freista fylgj­endum sínum, og svo á endanum sínum eigin syni. Meredith War­ren, sér­fræðingur í biblíu- og trúar­fræði við há­skólann í Sheffi­eld segir að þannig fari ítalska þýðingin gegn upp­runa­lega gríska textanum.