Meðan við sofum fer fram ýmis viðgerðarstarfsemi. Líkaminn byggir þá upp alls kyns efni, prótein og fleira sem við notum í vöku. Einnig vinnur líkaminn að því að gera við frumur. Svefn gegnir einnig því mikil­væga hlutverki að mynda vaxtar­hormón, sem hjálpar sérstaklega börnum og unglingum að vaxa en einnig fullorðnum við það að draga úr hrukkum og fleira.

Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og nýdoktor við Háskólann í Reykjavík, hefur rannsakað svefn mikið og er meðal annars stjórnarformaður og stofnandi Betri svefns. Hún er ein af þeim sem skiluðu nýlega skýrslu til ráðherra um breytingu klukkunnar á Íslandi. Erla segir umræðuna um breytingu klukkunnar oft á villigötum og jafnvel gæti misskilnings um hvað sé verið að skoða.

„Við erum vanaföst þjóð og gjarnan hrædd við breytingar. Það er svo áhugavert að hlusta á þessa umræðu varðandi klukkuna. Það sem málið snýst um er að breyta klukkunni einu sinni, seinka henni um klukkustund, og svo aldrei meir. Margir halda að það sé verið að tala um að taka upp tvískiptan tíma og að klukkan hefði sumar- og vetrartíma en það er ekki svo. Rannsóknir hafa verið að sýna það í auknum mæli að það sé ekki heilsusamlegt og reyndar er Evrópusambandið að skoða það að taka út tvískiptan tíma,“ segir Erla.

„Ég held að fólk myndi taka eftir þessu í tvo, þrjá daga og svo myndi þetta gleymast fyrir utan vonandi þau jákvæðu áhrif sem við teljum að þessi breyting gæti haft fyrir svefnvenjur Íslendinga. Ef við náum að bæta svefn, bæta til dæmis hálftíma við svefn hjá ungu fólki, hvað erum við að spara samfélaginu mikið á því? Hvað kostar þetta svefnleysi okkur? Þetta er eitt dýrasta vandamál í heiminum og við erum að tala um það að kannski þriðji hver maður sé svefnlaus.“

Rökin á móti klukkunni eru þau að það verði minni birta seinnipartinn. En miðað við birtuskilyrði yfir svartasta skammdegið skiptir litlu máli hvort vinnudagurinn sé til klukkan 16, 17 eða 18, myrkrið er þegar skollið á. Erla segir mikilvægara að fá morgunbirtuna. „Morgunbirtan er mikilvægasta merkið fyrir líkamsklukkuna til þess að stilla sig eftir. Við erum líka að leggja áherslu á að við séum bara á réttum tíma miðað við hnattstöðu landsins.“

Hvað gerist í líkamanum í svefni?

„Svefn er ástand endurnýjunar, enduruppbyggingar og viðgerðar. Þetta eru þrjú meginhlutverk svefnsins fyrir utan það auðvitað að endurnæra okkur og hvíla okkur. Ég hugsa að það megi segja að svefninn sé meiri hvíld fyrir heilann en líkamann. Vegna þess að við getum hvílt líkamann á ótrúlega fjölbreyttan hátt, lagst fyrir yfir daginn og annað. En heilinn fær sína hvíld og næringu á nóttunni í svefninum og núllstillir sig,“ segir Erla.

„Hugsum aðeins um hvað það er mikið áreiti á heilann í dag. Öll þessi tækni og snjallsímar og þess háttar. Við höfum í raun og veru sjaldan þurft jafn mikið á hvíld að halda og akkúrat núna.“

En hvað er það sem við vitum ekki um svefn?

„Það er svolítið erfitt að átta sig á því hvað maður veit ekki. Mér finnst svefninn vera svolítið eins og hafið. Við vitum ótrúlega mikið en við vitum líka að það er ótrúlega mikið sem við vitum ekki. Við bara vitum ekki hvað það er,“ segir Erla. Það sem við vitum hins vegar er að mannskepnan getur ekki lifað án svefns. Það helsta sem hægt er að komast að er hvað gerist ef við sofum lítið. Erla segir að eftir aðeins eina svefnlitla nótt sé hægt að merkja breytingar í líkamanum.


„Við sjáum auknar bólgur sem tengjast hinum og þessum sjúkdómum. Við sjáum að það verður ójafnvægi í hormónastarfseminni, sérstaklega þeim sem stýra seddu og hungri. Við förum að leita í öðruvísi fæðu og annars konar orku á borð við sykur, einföld kolvetni og fitu. Hormónin sem gefa okkur merki um hvenær við erum södd bælast niður þegar við erum þreytt og þá hættir okkur til að borða meira. Svefnleysi er í raun eitt af því mest fitandi sem til er,“ segir Erla.

„Eins verður sársaukaþröskuldurinn lægri. Líkaminn verður næmari og tilfinningar meira á flökti. Ef við erum að vakna kl. 3 til að fara í flug þá finnum við gjarnan meira fyrir braki og brestum í líkamanum. Við verðum stirðari og okkur verður jafnvel óglatt. Það fer allt úr jafnvægi. Ónæmiskerfið bælist sömuleiðis þannig að við verðum opnari fyrir hinum ýmsu pestum og flensum þegar við erum illa sofin. Þá minnkar framleiðni hjá okkur og hætta á slysum eykst. Svefnleysi er dýrt vandamál, bæði fyrir einstaklinginn og fyrir samfélagið.“

Svefnstig 1

Þessu ástandi má líkja við slökunarástand þar sem við erum milli tveggja heima. Við vitum af okkur en samt ekki. Ef einhver hnippir í okkur og spyr hvort við séum vakandi þá er líklegt að við svörum því það er einhver meðvitund í gangi. Fólk sem stundar jóga, núvitund eða slökun getur náð þessari heilavirkni sem einkennir þetta fyrsta svefnstig. Fyrsta svefnstigið er brú yfir í svefninn.

Svefnstig 2

Við erum í þessu ástandi um helming nætur og er þetta ástand talið tengjast endurheimt á líkamlegri orku.

Svefnstig 3 og 4

Djúpsvefninn, er líklega mikilvægasti svefninn sem við fáum. Þá verður hreinsun í líkamanum, losun á eiturefnum, flokkun á minninu, hvað á að festast og hverju á að henda, flokkun áreitis yfir daginn, endurnýjun á frumum og vaxtarhormón myndast. Það er mikið að gerast í djúpsvefninum og hann er ríkjandi fyrri part nætur frá miðnætti um það bili til klukkan þrjú um nótt.

REM

Draumsvefninn er líka mikilvægur og er hann talinn vera úrvinnsla tilfinningalegra áreita. Ef við erum undir álagi getur draumsvefninn breyst og orðið órólegri. Hann er líka talinn góður fyrir minnið og það sem er kallað aðgerðaminni. Þegar við erum að tileinka okkur einhvers konar færni, læra að prjóna, spila á hljóðfæri, nýja íþrótt, dans eða eitthvað svoleiðis þá festist færnin í minninu hjá okkur í draumsvefni.

Þetta sést mest hjá litlum börnum. Fyrstu tvö æviárin eru þau mun meira í draumsvefni en þekkist hjá eldri börnum og fullorðnum. Þarna eru börn á því æviskeiði að þau eru sífellt að læra einhvers konar færni sem þau þurfa að ná að tileinka sér. Þess vegna er vitað að draumsvefninn er mikilvægur fyrir barnið. Draumsvefn er ríkjandi undir morguninn, svona léttur svefn og draumsvefn undir lok nætur. Þá er alveg eðlilegt að maður rumski og viti aðeins af sér. Það er bara eitthvað sem gerist og eykst með aldrinum. Að vakna upp á nóttunni fer að aukast upp úr fertugu. Það verður rof á svefninum sem er fullkomlega eðlilegt.

Umfjöllun um svefn og breytingu klukkunnar má finna í Tilverunni, nýjum fréttakafla Fréttablaðsins.