Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að allt að tvö ár geti liðið þar til breytingar á skimunaraldri fyrir brjóstakrabbameini taki gildi.

Þetta kom fram í svari Svandísar við fyrirspurn Bryndísar Haraldsdóttur á þingfundi í gær.

Breytingar hangi ekki „í lausu lofti“

Ráðherra sagði tímann skipta máli fyrir þær stofnanir sem sinni þjónustunni og konurnar sem njóti þjónustunnar og alla almennt sem taki þátt í umræðunni um málið.

„Að fólk sjái fyrir sér einhver einhvern tímapunkt þar sem breytingin á sér stað en ekki að ákvörðunin liggi í lausu lofti,“ sagði Svandís en Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði ráðherra margvíslegra spurninga á Alþingi um skimanir.

Hefur í raun samþykkt breytingarnar

Gildistöku breytts brjóstaskimunaraldurs, frá 40 ára til fimmtugs, var frestað en í svari Svandísar má ekki lesa annað en ákvörðun hafi nú þegar verið tekin. „Þá hef ég í raun samþykkt tillögu og álit Landlæknis á umfangi og aðferðum krabbameinsskimana og þar með talið brjóstaskimun. Tillögur landlæknis byggja á áliti og faglegri ráðgjöf skimunarráðs til Landlæknis þar sem tekið er mið af niðurstöðum rannsókna á alþjóðlegum og evrópskum leiðbeiningum.“ Tillögurnar séu í samræmi við það sem gerist í Evrópu og á Norðurlöndum en umræðan hafi ekki verið nógu upplýsandi og því var gildistöku frestað.

Með breyttum skimunaraldri fólst líka að hækka aldur í efri mörkum og nú eru gerðar skimanir hjá konum á aldrinum 40–74 ára en til þessa hefur efra markið verið 69 ára.

Svandís greindi frá því að Svíþjóð og Ísland séu einu Norðurlandaþjóðinar sem hefja brjóstaskimun við 40 ára aldur. Hinar Norðurlandaþjóðirnar, Noregur, Danmörk, Finnland og Færeyjar, hefja skimun við 50 ár. Flestar þjóðir í Evrópu og Bandaríkin og Kanada hefja slíka skimun við 50 ára aldur. Svandís sagði að Evrópusambandið miði við 45 ára aldur í sínum leiðbeiningum.