Reykjavíkurborg hyggst breyta verklagi sínu við gerð áætlana um útvegun viðeigandi húsnæðis fyrir fatlað fólk.

Borgin ákvað í síðustu viku að falla frá áfrýjun í máli Kjartans Ólafssonar, 25 ára þroskahamlaðs manns með Downs-heilkenni, og una niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í málinu í júní 2020.

Mál Kjartans snéri að verklagi borgarinnar í kringum biðlista fatlaðra eftir húsnæði með þjónustu og sagði lögfræðingur hans niðurstöðuna sýna að verklagið stæðist ekki lög.

Engin röðun

Fatlaðir og aðstandendur þeirra gátu ekki með nokkru móti nálgast upplýsingar um hvar þeir stæðu á biðlistum borgarinnar. Grundvallarástæðan var sú að biðlistar borgarinnar fólu ekki í sér neina röðun umsækjenda.

Samkvæmt svörum frá borgarlögmanni samþykkti borgarráð endurskoðaða uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk á fundi sínum 11. ágúst síðastliðinn. Áætlunin geri ráð fyrir hraðari uppbyggingu og styttingu biðlista.

Breytt verklag

Borgin muni styðjast við einstaklingsmiðaða uppbyggingaráætlun og á grundvelli hennar gera áætlun um að útvega hverjum einstaklingi sem samþykktur hefur verið á biðlista viðeigandi húsnæði.

„Tilgangur breytts verklags er að leitast við að umsækjendur geti fengið nákvæmari svör um hvenær þeir megi vænta að fá úrlausn sinna húsnæðismála,“ segir jafnframt í svari borgarinnar. Mál Kjartans hafi leitt til fyrirhugaðra breytinga og að því leyti sé mál hans fordæmisgefandi.

„Á hinn bóginn verður ekki séð að málið hafi áhrif á aðra einstaklinga sem samþykktir hafa verið á biðlista eftir öðrum húsnæðis- og/eða þjónustuúrræðum hjá Reykjavíkurborg, enda eru þau úrræði reist á öðrum lagagrundvelli,“ segir í svarinu.

Muni taka tíma

Í byrjun ágúst voru 136 einstaklingar á biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk hjá Reykjavíkurborg. Af þeim voru 22 einstaklingar með lögheimili utan Reykjavíkur. Af þeim ástæðum segir borgin að gerð nýrra áætlana taki nokkurn tíma.

Samkvæmt uppbyggingaráætluninni sem borgarráð samþykkti í ágúst verður Félagsbústöðum hf. falið að byggja 20 nýja íbúðakjarna með 120 íbúðum, auk þess að útvega 48 íbúðir fyrir einstaklinga sem fá notið þjónustu færanlegs teymis.

Áætlunin gildir til ársins 2028 en verður þá endurskoðuð árlega með hliðsjón af biðlistum og árangri Félagsbústaða hf. við að útvega húsnæði fyrir fatlað fólk.

Tekjur ekki aukist

Í svari borgarinnar kemur jafnframt fram að sveitarfélög reiði sig á fjármagn frá íslenska ríkinu við rækslu lögbundinna verkefna sem varði þjónustu við fatlað fólk. Samkvæmt niðurstöðum starfshópa, sem skoðað hafa þjónustu fatlaðra og gert greiningu á kostnaðarþróun í málaflokknum, sé ljóst að tekjur sveitarfélaga hafi ekki aukist í samræmi við umfang þjónustu. Árið 2020 hafi halli málaflokksins verið tæplega níu milljarðar króna.

Tillögur starfshóps sem skipaður var til að móta tillögur um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna málefna fatlaðra eiga að liggja fyrir í byrjun desember næstkomandi. Þá hefur borgarráð skipað aðgerðateymi vegna fjárhagslegra samskipta borgarinnar við íslenska ríkið.