Verulegar breytingar verða á sóttkví og taka reglurnar gildi á miðnætti. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tilkynnti þetta að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Þau sem eru útsett fyrir utan heimili fara í smitgát en börn og unglingar verða undanþegin. Nánar er fjallað um þetta á vef Stjórnarráðsins en þar kemur fram:

  • Einstaklingum sem eru útsettir fyrir COVID-19 smiti utan heimilis eða dvalarstaðar síns verður ekki lengur skylt að fara í sóttkví en þurfa þess í stað að viðhafa smitgát. Sóttkví verður áfram beitt gagnvart þeim sem hafa verið útsettir fyrir smiti innan heimilis eða dvalarstaðar en þríbólusettir sem útsettir eru á heimili geta verið í smitgát sem lýkur með sýnatöku. Börn á leik- og grunnskólaaldri verða enn fremur undanþegin smitgát. Breytingarnar taka gildi á miðnætti.

Ekki verða breytingar á samkomutakmörkunum en Willum mun boða afléttingar næsta föstudag.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sagði einnig að ríkisstjórnin hefði samþykkt hálfan milljarð í styrkveitingu í menningarmál.

Metfjöldi smita og annað dauðsfall

Metfjöldi smita greindist í gær þegar 1.588 einstaklingar fengu jákvæðar niðurstöður úr PCR prófi.

Þetta er talsverð aukning frá því í gær þegar 1.151 smit greindist innanlands og nýtt met í fjölda smita innanlands frá upphafi. Karlmaður á áttræðisaldri lést á gjörgæslu síðasta sólarhring vegna Covid-19.

Sóttvarnalæknir lagði áherslu á einföldun sóttkvíar

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir útbjó tvö minnis­blöð fyrir heil­brigðis­ráð­herra en hann sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hann hafði ekki hug á því að breyta tak­mörkunum fyrir 2. febrúar.

Í minnisblaði Þórólfs sem hann skilaði til ráðherra í gær var lagt á­herslu á að ein­falda og létta sótt­kví og smit­gát.

Veðurbarnir blaðamenn fengu að bíða inni í Ráðherrabústaðnum á meðan ríkisstjórnin fundaði.
Fréttablaðið/Anton Brink