Íbúar í sex af sjö húsum við Tage Mortensens Vej í Frederikshavn á Jótlandi vilja ekki að nafni götunnar verði breytt þótt nú virðist komið á daginn að Tage Mortensen hafi níðst á hópi stúlkna í kór Danska ríkisútvarpsins.

Þetta kemur fram í frétt Danmarks Radio.

Stýrði kórnum í 35 ár

Tage Mortensen, sem lést árið 2001, lét af störfum á árinu 2000 sem stjórnandi stúlknakórs Danska ríkisútvarpsins, hinum víðfræga Danmarks Radio Pigerkor. Í kórnum eru í dag unglingstúlkur á aldrinum fjórtán til sautján ára en voru áður allt niður í tólf ára.

Kringumstæðurnar varðandi brotthvarf Mortensen hafa mjög verið í umræðunni í Danmörku á þessu ári. Hefur dagblaðið Ekstra Bladet rætt við fyrrverandi meðlimi stúlknakórssins sem lýst hafa óviðeigandi hegðun Mortensen gagnvart þeim; ógnarstjórn, kynferðislegu- og andlegu ofbeldi. Ber þeim saman um að stjórn Danmarks Radio hafi ávalt skellt skollaeyrunum við kvörtunum þeirra undan Mortensen. Hann stýrði kórnum í 35 ár.

Árið 2011 var ákveðið að nefna götu í höfuðið á Mortensen í heimabæ hans, Frederikshavn. Í ljósi nýrra upplýsinga um framferði hans gagnvart stúlkunum í DR Pigekor hafa íbúar og bæjaryfirvöld þar að sögn Danmarks Radio undanfarið rökrætt hvort rétt hvort breyta eigi nafni götunnar. Nú hafi þó verið ákveðið að halda nafninu óbreyttu. Sem fyrr segir sé það vegna þess að íbúanir í sex af sjö húsum við götuna séu andvígir því að breyta og vilji búa áfram við Tage Mortensens Vej.

Eftirmaður líka ásakaður

Þess má geta að eftirmaður Tage Mortensen sem stjórnandi DR Pigekor fram til ársins 2011, Michael Bojesen, hefur einnig verið sakaður um óviðeigandi framkomu gagnvart stúlkunum í kórnum. Er hann sagður hafa skapað afar kynferðislegt andrúmsloft í starfinu þar sem stúlkurnar voru meðal annars verðlaunaðar fyrir að klæðast kynferðislega ögrandi fatnaði.

Af þessu fór þó tvennum sögum. Til dæmis greindi dagblaðið Kristilegt Dagblad frá yfirlýsingu 25 kvenna sem höfðu verið í kórnum undir leiðsögn Bojesen og kváðust ekki kannast við lýsingar af kynferðislegum undirtónum í stjórnartíð hans. Þær tóku þó fram að þær drægju ekki í efa fyrrgreindar frásagnir annarra meðlima kórsins.