Við­ræðum Breta og Evrópu­sam­bandsins (ESB) um við­skipta­samning eftir að Bret­land gengur úr sam­bandinu í lok árs hefur verið frestað. Helstu samninga­menn Breta og ESB sendu frá sér sam­eigin­lega yfir­lýsingu í kvöld um þetta þar sem segir að enn sé langt í land.

Samninga­fundir hafa staðið yfir í London síðustu vikuna en litlum árangri hefur verið náð. „Eftir viku af á­köfum samninga­við­ræðum á­kváðum við David Frost [sem fer með samnings­um­boð Breta] í dag að for­sendur sam­komu­lags séu ekki fyrir hendi....“ sagði Michel Barni­er, sem fer með samnings­um­boð ESB, á Twitter í kvöld.

Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Breta, og Ur­sula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórnar ESB, munu ræða saman á morgun um næstu skref.

Í frétt BBC er haft eftir hátt­settum heimildar­manni að yfir­lýsingar Davids Frost og Michels Barni­er sýni að mjög langt sé á milli Breta og ESB í við­ræðunum. Ef samningur næst ekki fyrir lok árs munu Bretar ganga úr sam­bandinu samnings­lausir og fara við­skipti þeirra við ESB þá fram á grund­velli reglna Al­þjóða­við­skipta­stofunnar WTO.