Viðræðum Breta og Evrópusambandsins (ESB) um viðskiptasamning eftir að Bretland gengur úr sambandinu í lok árs hefur verið frestað. Helstu samningamenn Breta og ESB sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í kvöld um þetta þar sem segir að enn sé langt í land.
Samningafundir hafa staðið yfir í London síðustu vikuna en litlum árangri hefur verið náð. „Eftir viku af áköfum samningaviðræðum ákváðum við David Frost [sem fer með samningsumboð Breta] í dag að forsendur samkomulags séu ekki fyrir hendi....“ sagði Michel Barnier, sem fer með samningsumboð ESB, á Twitter í kvöld.
After one week of intense negotiations in London, together with @DavidGHFrost, we agreed today that the conditions for an agreement are not met, due to significant divergences on level playing field, governance and fisheries.
— Michel Barnier (@MichelBarnier) December 4, 2020
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, munu ræða saman á morgun um næstu skref.
Í frétt BBC er haft eftir háttsettum heimildarmanni að yfirlýsingar Davids Frost og Michels Barnier sýni að mjög langt sé á milli Breta og ESB í viðræðunum. Ef samningur næst ekki fyrir lok árs munu Bretar ganga úr sambandinu samningslausir og fara viðskipti þeirra við ESB þá fram á grundvelli reglna Alþjóðaviðskiptastofunnar WTO.
Here is a statement from myself and @MichelBarnier about the state of play in our negotiations. pic.twitter.com/P5Uhg7RQUz
— David Frost (@DavidGHFrost) December 4, 2020