Fjöldi hótela og annarra fyrirtækja í ferðaþjónustu hér á landi varð af viðskiptum þegar stór hópur frá Ísrael sem hafði pantað þjónustu með löngum fyrirvara skilaði sér ekki til landsins í vikunni. Hópurinn flaug frá Ísrael til London þar sem átti að millilenda á leið til Íslands en vélinni var snúið til baka fyrir lendingu aftur til Ísrael og öll ferðin til Íslands felld niður.

Þráinn Lárusson, eigandi Hótels Hallormsstaðar, segir að hótelið hafi átt von á 20 manns úr þessum hópi, tólf herbergi hafi verið frátekin fyrir ísraelsku ferðamennina.

„Þetta ástand er Brexit að kenna. Bretar eru að fara langverst út úr þessu ástandi sem skapast hefur. Það hefur verið aflýst 1.500 flugum bara hjá British Airways. Nú gjöldum við fyrir þetta líka,“ segir Þráinn.

Ófremdarástand hefur skapast á flugvöllum víða um heim síðustu vikur. Álag sem tengist undirmönnun er víða en alverst er ástandið sagt í London. Ferðamenn til Íslands hafa þó skilað sér að sögn Þráins þrátt fyrir seinkanir, það er nýtt að ferð sé aflýst. Þráinn segist smeykur um að fleiri afbókanir geti fylgt síðar í sumar.

„Hér er allt gistirými upppantað núna,“ segir Þráinn. „Það hefur verið haft á orði að Austurland sé uppselt þannig að fæstir láta sig dreyma um að hægt sé að bóka herbergi á þessum árstíma án fyrirvara,“ segir hann um möguleikana á því að nýta herbergin.

Þráinn segist þó að hluta tryggður fyrir tjóninu. Þegar ferð sé aflýst með svo stuttum fyrirvara gildi alþjóðlegir bókunarskilmálar.

„Ég hef óttast lengi að þessar raskanir í flugi myndu bitna á okkur. Áhrifin hafa það sem af er verið minni en ég átti von á en það er hreyfing á hlutunum,“ segir Þráinn og bendir á dómínóáhrif í vandræðagangi sem geti skapast ef koma ferðalangs tefst um einn dag á háannatíma.