Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu gæti frestast um allt að tvö ár. Þetta hafði BBC eftir ónefndum heimildarmanni úr ríkisstjórn Theresu May. Forsætisráðherrann skrifaði í gær hið formlega bréf til Evrópusambandsins þar sem farið var fram á að útgöngudegi yrði frestað frá 29. mars þar til 30. júní eða lengur.

Þetta gerði May eftir að breska þingið hafnaði samningi hennar öðru sinni, hafnaði jafnframt samningslausri útgöngu og fól henni þess í stað að fara fram á frestun. Leiðtoga­ráð ESB þarf nú að taka afstöðu til beiðninnar og tíminn er af skornum skammti.

Michel Barnier, sem leiðir samninganefnd ESB, sagði í gær að sambandið myndi ekki samþykkja beiðnina nema Bretar sýndu fram á raunverulega áætlun um hvað þeir hygðust gera við tímann sem fengist til viðbótar.