Olíu­risinn Shell hefur á­kveðið að flytja höfuð­stöðvar fyrir­tækisins frá Haag í Hollandi til London. Sam­kvæmt til­kynningu frá Shell í er­lendum frétta­miðlum er stefnt að því að Shell verði al­farið breskt fé­lag. Á­kvörðunin sé tekin til að ein­falda skipu­lag og gera fé­lagið sveigjan­legra. Á­fram sé stefnt að því að Shell verði losunar­laust fyrir­tæki.

Ed­ward Huij­bens, prófessor við Wa­genin­gen­há­skóla í Hollandi og fyrr­verandi vara­for­maður VG, gefur þó lítið fyrir skýringar Shell. Hann telur að flutningur höfuð­stöðvanna tengist fyrst og fremst Brexit.
„Brexit er sér­leið fyrir um­hverfis­sóða,“ segir Edward.

Ed­ward Huij­bens, prófessor við Wa­genin­gen­há­skóla í Hollandi.
Mynd/Aðsend

Stutt sé síðan Shell var dæmt í Hollandi vegna mengunar frá út­blæstri. Holland hafi með ýmsum hætti skipað sér í fremstu röð ríkja er kemur að um­hverfis­legri á­byrgð. Þetta um­hverfi sé fyrir­tækið hugsan­lega að flýja.

Með Glas­gow-sam­komu­laginu sem aðildar­ríki Sam­einuðu þjóðanna undir­rituðu um síðustu helgi er vonast til að hægt verði að tak­marka hlýnun við eina og hálfa gráðu. Notkun jarð­efna­elds­neytis er ein veiga­mesta hindrunin á þeirri veg­ferð.

„Það fyrsta sem manni dettur í hug er að þeir séu að flytja sig úr Evrópu­sam­bandinu til að losna við vesen,“ segir Stefán Gísla­son um­hverfis­stjórnunar­sér­fræðingur.

Með „veseni“ á Stefán við stífara reglu­verk í um­hverfis­málum en sé í Bret­landi. Auð­veldara kunni að vera fyrir Shell að hafa á­hrif á bresk stjórn­völd en hollensk.

Um­hverfis­lög­gjöf sterkari í Hollandi

„Þetta gæti líka snúist um að flýja laga­um­hverfi. Það hafa fallið dómar í Hollandi sem kannski hefðu ekki fallið í öllum Evrópu­­sam­bands­ríkjum þar sem um­hverfis­verndar­sam­tök kærðu ríkið fyrir að­gerða­leysi og unnu það mál.“

Laga­leg staða um­hverfisins sé sterkari í Hollandi en flestum öðrum löndum. Meiri ó­vissa sé varðandi at­vinnu­líf og hvernig bresk stjórn­völd, ó­bundin Evrópu­sam­bandinu, munu bregðast við í kjöl­far Glas­gow-sam­komu­lagsins.

Stefán Gísla­son um­hverfis­stjórnunar­sér­fræðingur.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

„Eftir Brexit er Bret­land ekki bara eyja í eigin­legri merkingu heldur líka eyja í Evrópu í ó­eigin­legri merkingu. Mér finnst lík­legt að þar reikni menn með meiri sveigjan­leika í um­hverfis­málum en innan ESB. Jafn­vel þótt ekkert sé fast í hendi þá er lík­legt að fyrir­tæki sem vilja sér­stak­lega koma sér undan um­hverfis­reglum stað­setji sig þar. Flutningurinn gæti verið strategísk að­gerð,“ segir Stefán.

Hann segir að mörg fyrir­tæki hafi þó frá og með 2015 tekið fram úr stjórn­völdum í vilja til mikil­vægra um­hverfis­að­gerða. At­vinnu­lífið kalli eftir að stjórn­völd setji því ramma en stjórn­völd hafi víða setið hjá og beðið lausna hjá at­vinnu- og við­skipta­lífi.

Spurður um væntingar vegna Glas­gow-sam­komu­lagsins segist Stefán bjart­sýnn en miklu varði að fyrir­heit verði að at­höfnum fyrr en síðar. Það geti skipt sköpum að tak­marka losun strax fremur en að horfa til loka samnings­tíma­bilsins.

Þrátt fyrir Parísar-sam­komu­lagið sem vakti á sínum tíma miklar vonir meðal pólitískra leið­toga hefur gengið illa fyrir ríki, og þar á meðal Ís­land, að efna skuld­bindingar. Losun gróður­húsa­loft­tegunda er enn að aukast í heiminum þvert á fyrir­heit.

„Það vantar oft eftir­fylgni í kjöl­far orða og yfir­lýsinga, eftir­fylgnin verður ekki sjálf­krafa, en ef allir standa við lof­orð sín erum við kannski komin ná­lægt einni og hálfri gráðu í lok samnings­tímans,“ segir Stefán.