Fjölmargir viðskiptavinir Íslandspósts eru í sárum vegna þess að jólagafir til ástvina í Bandaríkjunum skiluðu sér ekki í tæka tíð. Flesta grunaði að sendingunni hefði seinkað en núna, mánuði eftir jól, bólar ekkert á pökkunum.

Í hópi þessara viðskiptavina eru hjónin Davíð Bjarnason og Unnur Karlsdóttir en þau sendu tvo pakka dóttur sinnar og barnabarna ytra. Pakkarnir fóru í póst þann 6. desember en síðan hefur ekki sést tangur né tetur af þeim. Davíð vakti athygli á málinu á Facebook-síðu fyrir Íslendinga í Bandaríkjunum og þá kom í ljós að fjölmargir voru í sömu sporum. Hjónin eru verulega ósáttur við þjónustu Íslandspósts.

Pakkin virðist aldrei hafa farið frá Íslandi

„Við höfum hringt margoft útaf pakkanum í Íslandspóst en fáum aldrei nein skýr svör. Einu upplýsingarnar sem við höfum fengið eru þær að beðið sé eftir staðfestingu frá bandaríska póstinum,“ segir Davíð. Þau hafi reynt að rekja afdrif pakkans með þar til gerðu númeri á heimasíðu Íslandspóst en síðustu upplýsingarnar voru þær að verið væri að undirbúa pakkann fyrir flug þann 9. desember.

„Dóttir okkar ytra hefur síðan fengið þær upplýsingar að pakkinn virðist aldrei hafa yfirgefið Ísland,“ segir Davíð. Heildarverðmæti pakkanna var um 60 þúsund krónur og segist Davíð ekki hafa fengið neinar upplýsingar frá Íslandspósti um hvort að sú upphæð fáist bætt. Þá hafi verið talsverð vandræði með pakka sem dóttir þeirra sendi til þeirra frá Bandaríkjunum.

„Sá pakki fór í hraðsendingu frá Bandaríkjunum talsvert fyrir jól en barst ekki fyrr en löngu eftir jól,“ segir hann.

JFK-flugvöllur er í New York í Bandaríkjunum.
Fréttablaðið/EPA

Pósturinn gefur sér 90 daga

Héðinn Gunnarsson, forstöðumaður vörustýringar hjá Íslandspóst, staðfestir að sendingin með gjöfunum hafi týnst á JFK-flugvelli. Hann segist ekki muna eftir því að slíkt tilvik hafi áður komið upp hjá fyrirtækinu. „Þetta er afar leiðinlegt en við höfum í raun engar aðrar upplýsingar um hvað hafi gerst ytra. Það hefur komið fyrir að sendingar finnist ekki í nokkra daga en að sending týnist alfarið, eins og margt bendir núna til, er mjög sjaldgæft,“ segir Héðinn.

Að hans sögn gefur Íslandspóstur sér 90 daga þar til að sendingin er afskrifuð og hafist er handa við að greiða út bætur. Héðinn hvetur viðskiptavini sem glötuðu gjöfunum að senda þegar í stað endurkröfuskýrslur á Íslandspóst en bíði ekki þar til að 90 dagar séu liðnir.