Bret­land hefur nú yfir­gefið innri markað Evrópu­sam­bandsins fyrir fullt og allt en Bretar hættu að fylgja reglum ESB klukkan 23 þann 31. desember 2020, að ís­lenskum tíma. Boris John­son for­sætis­ráð­herra sagði Bret­land hafa „frelsið í sínum höndum“ eftir út­gönguna.

Út­ganga Breta úr Evrópu­sam­bandinu, eða Brexit eins og það hefur oft verið kallað, hefur tekið gríðar­legan tíma en meiri­hluti Breta sam­þykkti út­gönguna í þjóðar­at­kvæða­greiðslu fyrir rúmum fjórum árum. Bretar gengu úr ESB þann 31. janúar 2020 og lauk að­lögunar­tíma­bili í gær.

Náðu saman á aðfangadag

Við­skipta­mál í Bret­landi hafa verið í á­kveðnu upp­námi síðast­liðna mánuði en á tíma­punkti var ó­ljóst hvort það næðist að skrifa undir við­skipta­samning milli Breta og ESB áður en að­lögunar­tíma­bilinu myndi ljúka.

Sam­komu­lag náðist þó þeirra á milli á að­fanga­dag og er ó­hætt að segja að mörgum hafi verið létt. Þrátt fyrir að meiri­hluti Breta hafi sam­þykkt út­gönguna voru tölu­vert margir and­vígir henni og telja margir að staða Bret­lands muni að­eins versna, að því er kemur fram í frétt BBC.

Ósátt við útgönguna

Utan­ríkis­ráð­herra Ír­lands, Simon Coven­ey, sagði til að mynda að út­gangan væri ekki eitt­hvað til að fagna og að sam­band Breta og Íra yrði ekki hið sama. Þá sagði Frakk­lands­for­seti, Emmanuel Macron, að út­gangan hafi verið byggð meðal annars á lygum og fölskum lof­orðum.

Nicola Stur­geon, fyrsti ráð­herra skosku heims­a­stjórnarinnar, hélt síðan í sitt mark­mið um að koma sjálf­stæðu Skot­landi inn í Evrópu­sam­bandið en hún sagði á Twitter að Skot­land væri á leiðinni aftur til Evrópu.