Ef af stigskiptingu verður gætu ungir bílstjórar ekki mátt aka á nóttunni eða með fleiri en einn í bílnum, auk þess sem sett yrðu mörk á hversu öfluga bíla viðkomandi mega keyra. Einn af þeim sem tala mun fyrir nefndinni er dr. Neale Kinnear, deildarstjóri hegðunarvísindadeildar samgöngurannsóknarstofunnar (TRL).

Eins og fram kemur í breska blaðinu Telegraph telur Kinnear að stigskipting réttinda geti komið í veg fyrir, eða geti fækkað látnum eða alvarlega slösuðum í bílslysum um 400 á ári. Það myndi einnig spara þjóðfélaginu stórar upphæðir, eða um 35 milljarða króna á ári. Til viðbótar við stigskiptingu myndu nýir ökumenn þurfa að klára vissan fjölda ökutíma til að geta tekið verklegt próf. Ökumenn á aldrinum 17-24 ára eru í mestri áhættu að lenda í alvarlegum slysum. Þrátt fyrir að látnum í bílslysum hafi fækkað frá árinu 2012 í Bretlandi, hefur látnum í yngsta aldurshópnum ekki fækkað.

Ökumenn frá 17-19 ára eru 1,5 prósent ökumanna í Bretlandi, en lenda í 10 prósentum alvarlegra slysa. Fjórðungur yngsta aldurshópsins lendir í slysi á fyrstu tveimur árum réttinda sinn. Stigskipting réttinda hefur þegar verið reynd með góðum árangri í löndum eins og Nýja-Sjálandi og Ástralíu og því vilja breskir þingmenn skoða möguleika á því, þó að fyrirsjáanlegt sé að slíkar hugmyndir yrðu ekki vinsælar. Árið 2018 var ákveðið að koma á stigskiptingu réttinda á NorðurÍrlandi til reynslu, en það mun koma til framkvæmda á þessu ári. Eflaust mun árangur þess þar hafa áhrif á útkomuna í Bretlandi á næstu árum, en stigskiptingin yrði eflaust einskorðuð við Bretlandseyjar. Þar sem Bretland er á leiðinni út úr Evrópusambandinu þýðir það að landið getur haft meiri áhrif á hvernig málum sem þessum er háttað. Ísland er aðili að ökuréttindalöggjöf Evrópusambandsins gegnum EES samninginn.