Billy Hood, 24 ára gamall knatt­spyrnu­þjálfari, hefur verið dæmdur í 25 ára fangelsi í Dúbaí, Sam­einuðu arabísku fursta­dæmunum, eftir að CBD-olía fannst í fórum hans.

Breskir fjöl­miðlar greindu frá þessu í dag.

Hood hefur starfað sem þjálfari í fursta­dæmunum undan­farin misseri en þann 31. janúar síðast­liðinn var hann hand­tekinn við bif­reið sína. Við leit í henni fundu lög­reglu­menn þrjár litlar flöskur af CBD-olíu og raf­rettu. Hood neitaði sök í málinu og sagði að vinur hans hefði skilið olíuna og raf­rettuna eftir í bílnum hans, en sá hafði heim­sótt hann til Dúbaí nokkrum vikum áður.

Hood segist hafa sætt slæmri með­ferð lög­reglu­yfir­valda í Dúbaí og lög­reglu­menn hafi þvingað fram játningu hans í málinu. Hefur Hood þver­tekið fyrir það að hafa neytt olíunnar og aldrei svo mikið sem snert fíkni­efni. Þvag­prufa leiddi í ljós að hann hafði ekki neytt kanna­bis­efna ný­lega.

Í frétt Mirror er bent á að notkun CBD-olíu sé lög­leg í Bret­landi og oft notuð til að með­höndla verki og kvíða. En þar sem olían inni­heldur snefil af THC, virka efninu í kanna­bis­efnum, er litið svo á, sam­kvæmt strangri fíkni­efna­lög­gjöf Sam­einuðu arabísku fursta­dæmanna, að um fíkni­efni sé að ræða.