Breski rithöfundurinn Ian McEwan hlaut í gær Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti um þetta á Bókmenntahátíð í Veröld í Reykjavík í gær en þetta er í fyrsta skipti sem verðlaunin eru veitt.

McEwan var ekki viðstaddur athöfnina. Hann mun hins vegar koma hingað til lands í september og veita verðlaununum, fimmtán þúsundum evra, viðtöku. Samkvæmt fréttatilkynningu mun íslensk þýðing Árna Óskarssonar á nýjustu bók McEwans, Machines Like Me, koma út um svipað leyti.

Haft var eftir verðlaunahafanum að hann væri afar þakklátur fyrir verðlaunin. Hann hlakki sömuleiðis til þess að koma til Reykjavíkur í haust og taka við þeim.

Valnefnd, sem var skipuð Elizu Reid forsetafrú, Einari Má Guðmundssyni rithöfundi og Stellu Soffíu Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra Bókmenntahátíðar í Reykjavík, sagði í umsögn sinni að verk Ians McEwan á borð við smásögurnar First Love, Last Rites og In between the Sheets og skáldsögurnar Steinsteypugarðurinn og Vinarþel ókunnugra hefðu náð vel til áhugamanna um nýjungar í bókmenntum.

„Þar kvað við nýjan tón en um leið vöktu þær harðar deilur. Það voru ekki síst ögrandi viðfangsefnin, efnisval utan alfaraleiðar, viðkvæm mál, sem skópu höfundinum sérstöðu. Sagt hefur verið um Ian McEwan að hann haldi sig ekki bara við fyrirsagnirnar í huganum heldur líka smáa letrið í sálinni,“ sagði þar að auki í umsögn frá valnefndinni.