Breskur karlmaður var í lok september dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa staðið að innflutningi á hátt í fjórtán þúsund stykkjum af töflum sem innihéldu flúbrómazólam sem ætlaðar voru til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Efnið er skylt flokki lyfja sem kallast benzódíazepín sem hefur meðal annars róandi og kvíðastillandi verkun.

Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 28. september síðastliðinn var var nýlega birtur á vef þeirra.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi flutt fíkniefnin í ferðatösku sem hann hafði meðferðis sem farþegi í flutti frá Manchester í Englandi til Íslands.

Játaði skýlaust

Maðurinn játaði brotið skýlaust fyrir dómi en hann hefur ekki verið dæmdur til refsingar hér á landi áður.

Þá segir jafnframt í dómnum að brotið hafi verið þaulskipulagt og að dómurinn líti til umfangs og alvarleika brotsins hvað varðar magn og þá sé sérstaklega litið til þess að efnið hafi veirð flutt inn í formi taflna í umbúðum sem ranglega báru þess merki að um löglegt lyf væri að ræða.

Dómari taldi ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna vegna alvarleika málsins.

Töflurnar voru gerðar upptækar til ríkissjóðs en efnið var haldlagt við rannsókn málsins.