Bretar hafa nú hafið bólu­setningu með bólu­efni AstraZene­ca, sem var þróað í sam­vinnu við Ox­ford há­skólann, en fyrsta manneskjan til þess að fá bólu­efnið var hinn 82 ára Brian Pin­ker. Sjálfur er Pin­ker frá Ox­ford og sagðist hann vera mjög stoltur yfir því að bólu­efnið hafi komið þaðan.

„Það voru mikil for­réttindi að fá að gefa fyrsta skammtinn af bólu­efninu á Churchill spítalanum hérna í Ox­ford, að­eins nokkra hundruð metra frá staðnum sem það var þróað,“ sagði Sam Foster, yfir­maður hjúkrunar hjá Ox­ford há­skóla­sjúkra­húsunum, en hann sá um að gefa Pin­ker bólu­efnið.

Annað bóluefnið sem Bretar hafa samþykkt

Alls voru 530 þúsund skammtar af bólu­efni AstraZene­ca fluttir til spítala í Ox­ford, London, Sus­sex, Lan­cas­hire og Warwicks­hire og hefst þar bólu­setning í dag, fimm dögum eftir að bólu­efnið var sam­þykkt í Bret­landi.

Um er að ræða annað bólu­efnið sem Bretar eru byrjaðir að nota gegn CO­VID-19 en bólu­setning með bólu­efni Pfizer og BioN­Tech hófst þar í landi þann 8. desember síðast­liðinn. Bretar eru þeir fyrstu í heiminum til þess að heimila notkun bólu­efnis AstraZene­ca.

Bóluefnið leiðin út úr faraldrinum

Bretar glíma nú við upp­sveiflu í CO­VID-19 far­aldrinum en eins og staðan er í dag hafa tæp­lega 2,7 milljón manns greinst með veiruna í Bret­landi og rúm­lega 75 þúsund manns látist eftir að hafa greinst með veiruna.

Heil­brigðis­ráð­herra Bret­lands, Matt Hancock, sagði í við­tali við BBC Break­fast í morgun að bólu­setningin væri mikil­vægt skref í bar­áttunni gegn CO­VID-19. Erfiðar vikur væru fram­undan en bólu­efnið væri leið Breta út úr far­aldrinum.