Bresk stjórn­völd hyggjast undir­búa sig undir að sprauta lands­menn í þriðja sinn með bólu­efni gegn CO­VID-19 í haust. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið og er það haft eftir Matt Hancock, heil­brigðis­ráð­herra landsins.

Sam­kvæmt Hancock bíða stjórn­völd nú eftir niður­stöðum prófana með mis­munandi bólu­efnum. Breskt heil­brigðis­starfs­fólk hefur kallað eftir á­ætlun frá stjórn­völdum og lagt á­herslu á að mörgum spurningum sé enn ó­svarað, meðal annars um það hve lengi mót­efni varir eftir bólu­setningu.

Rúm­lega 60 prósent Breta hafa fengið tvær sprautur og eru þar með full bólu­settir. Þá hafa fjórir af hverjum fimm full­orðnum fengið að minnsta kosti eina sprautu. Smitum fer fjölgandi í Bret­landi, þar sem Delta-af­brigðið svo­kallaða er al­gengast.

Segir í um­fjöllun BBC að stjórn­völd hafi áður rætt þriðju sprautuna vegna CO­VID. Ýmsum spurningum sé hins­vegar enn ó­svarað eins og: Hve lengi mun vörnin virka sem upp­haf­legir skammtar veita og verður þörf á endur­bólu­setningu? Mun fólk fá sama bólu­efni í þriðja skiptið? Hvernig mun virka að breyta bólu­efnunum vegna nýrra af­brigða? Verður þeim breytt á hverju ári, eins og flensu­sprautunni, eða verður það oftar?

Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunin hefur hvatt rík lönd líkt og Bret­land til þess að gefa bólu­efni sín til fá­tækra landa áður en þau hefjast handa við að undir­búa endur­bólu­setningu. Haft er eftir prófessornum Ant­hony Harnden að farið verði eftir vísinda­legum gögnum áður en hafist verður handa við slíka bólu­setningu.