„Niceair hefur hvorki íslenskt né breskt flugrekstrarleyfi og uppfyllir því ekki skilyrði til að fá leyfi til að starfrækja áætlunarflug samkvæmt loftferðasamningi milli Bretlands og Íslands,“ segir Andrew McConnell, yfirmaður fjölmiðla- og samskiptadeildar bresku flugmálastjórnarinnar, CAA.

Áætlunarferðir Niceair milli Akureyrar og London sem hófust 3. júní liggja niðri. Breska flugmálastjórnin gaf 26. maí út leyfi vegna flugsins til flugfélagsins Hi Fly Ltd. of Malta sem flýgur fyrir Niceair.

Eleanor Crabb, fjölmiðlafulltrúi hjá CAA, bendir á að leyfi Hi Fly frá 26. maí nái aðeins til leiguflugs þannig að farmiðar séu ekki seldir beint til almennings heldur í gegn um leyfishafa.

„Þótt bresk og íslensk yfirvöld geti leyft leiguflug til skamms tíma munu þau tryggja að með því verði ekki grafið óbeint undan loftferðasamningnum. CAA greip því til þess að afturkalla þetta leyfi þegar eðli starfseminnar; áætlunarflug fremur en leiguflug, og hlutverk Niceair, sem hefur engin tilskilin leyfi eins og er, – varð ljóst,“ útskýrir Crabb.

Að sögn Crabb býður Niceair áætlunarflug. Loftferðasamningur Bretlands og Ísland heimili aðeins flug með viðurkenndu félagi í Bretlandi og Íslandi. Flugrekstrarleyfi Hi Fly Malta sé hvorki breskt eða íslenskt heldur Evrópusambandsleyfi. Því geti félagið ekki haft íslensk eða bresk leyfi til flugs. 

Andrew McConnell segir þegar um sé að ræða flugfélög önnur en bresk tryggi CAA að þau uppfylli kröfur um öryggi og tryggingar og nauðsynleg leyfi til að vernda neytendur. Það hafi verið gert áður en Bretar gengu úr ESB.

„Eitt megin hlutverk Flugmálastjórnar Bretlands er að vernda neytandann og að tryggja að öll félög sem selja farmiða í farþegaflug til eða frá Brelandi hafi nauðsynleg flugrekstrarleyfi eða ferðaskrifstofuleyfi fyrir þeirri starfsemi,“ segir McConnell.

„Niceair hafði ekki samband við Flugmálastjórn Bretlands í aðdragand flugs félagsins 3. júní. CAA er í sambandi við yfirvöld á Íslandi í tengslum við þetta mál.“