Bóluefni Oxford og AstraZeneca gegn COVID-19 hefur nú verið samþykkt í Bretlandi en heilbrigðisyfirvöld þar í landi tilkynntu málið í morgun. Um er að ræða annað bóluefnið sem hefur verið samþykkt í Bretlandi en neyðarheimild var veitt fyrir notkun bóluefnis Pfizer og BioNTech í byrjun desember.
Bretar hafa þegar tryggt sér 100 milljón skammta af bóluefni AstraZeneca, nægilega marga skammta til að bólusetja 50 milljón einstaklinga. Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, sagði í viðtali við BBC Breakfast að með þeim skömmtum, og skömmtunum af bóluefni Pfizer, alls 30 milljón skammtar, væri hægt að bólusetja alla í Bretlandi.
Hancock sagði að um væri að um væri að ræða mikilvægt skref en Bretar hafa komið sérstaklega illa út úr faraldrinum. Eins og staðan er í dag hafa tæplega 2,4 milljón manns greinst með veiruna þar í landi og tæplega 72 þúsund látist eftir að hafa smitast. Þá hefur nýtt afbrigði veirunnar verið að valda miklum skaða í Bretlandi og hafa hertar samkomutakmarkanir verið settar á.
Þrjú bóluefni verið samþykkt á Vesturlöndunum
Ólíkt bóluefni Pfizer, sem þarf að geyma við mikið frost, þarf aðeins að geyma bóluefni AstraZeneca við frostmark og auðveldar það því dreifingu bóluefnisins. Bóluefni Pfizer er þó með meiri virkni samkvæmt fyrstu niðurstöðum prófana en bóluefni AstraZeneca var með á bilinu 62 til 90 prósent virkni.
Bóluefni frá þremur stærstu framleiðundunum hefur þannig verið samþykkt annars vegar í Bretlandi og hins vegar í Bandaríkjunum, en Bandaríkjamenn hafa heimilað notkun bóluefnis Pfizer og bóluefnis Moderna. Evrópusambandið hefur þó aðeins veitt bóluefni Pfizer skilyrt markaðsleyfi en gert er ráð fyrir að samningar náist um hin bóluefnin í janúar.