Bólu­efni Ox­ford og AstraZene­ca gegn CO­VID-19 hefur nú verið sam­þykkt í Bret­landi en heil­brigðis­yfir­völd þar í landi til­kynntu málið í morgun. Um er að ræða annað bólu­efnið sem hefur verið sam­þykkt í Bret­landi en neyðar­heimild var veitt fyrir notkun bólu­efnis Pfizer og BioN­Tech í byrjun desember.

Bretar hafa þegar tryggt sér 100 milljón skammta af bólu­efni AstraZene­ca, nægi­lega marga skammta til að bólu­setja 50 milljón ein­stak­linga. Matt Hancock, heil­brigðis­ráð­herra Bret­lands, sagði í við­tali við BBC Break­fast að með þeim skömmtum, og skömmtunum af bólu­efni Pfizer, alls 30 milljón skammtar, væri hægt að bólu­setja alla í Bret­landi.

Hancock sagði að um væri að um væri að ræða mikil­vægt skref en Bretar hafa komið sér­stak­lega illa út úr far­aldrinum. Eins og staðan er í dag hafa tæp­lega 2,4 milljón manns greinst með veiruna þar í landi og tæp­lega 72 þúsund látist eftir að hafa smitast. Þá hefur nýtt af­brigði veirunnar verið að valda miklum skaða í Bret­landi og hafa hertar sam­komu­tak­markanir verið settar á.

Þrjú bóluefni verið samþykkt á Vesturlöndunum

Ó­líkt bólu­efni Pfizer, sem þarf að geyma við mikið frost, þarf að­eins að geyma bólu­efni AstraZene­ca við frost­mark og auð­veldar það því dreifingu bólu­efnisins. Bólu­efni Pfizer er þó með meiri virkni sam­kvæmt fyrstu niður­stöðum prófana en bólu­efni AstraZene­ca var með á bilinu 62 til 90 prósent virkni.

Bólu­efni frá þremur stærstu fram­leið­undunum hefur þannig verið sam­þykkt annars vegar í Bret­landi og hins vegar í Banda­ríkjunum, en Banda­ríkja­menn hafa heimilað notkun bólu­efnis Pfizer og bólu­efnis Moderna. Evrópu­sam­bandið hefur þó að­eins veitt bólu­efni Pfizer skil­yrt markaðs­leyfi en gert er ráð fyrir að samningar náist um hin bólu­efnin í janúar.