Bresk flugmálayfirvöld hafa nú tilkynnt að engar Boeing 737 MAX megi fljúga innan breskrar lofthelgi. Það þýðir að þær megi ekki lenda, taka á loft eða fljúga yfir landið.

Í tilkynningu þeirra segir að þau hafi fylgst náið með málinu frá því að slík vél hrapaði stuttu eftir flugtak í Eþíópíu síðastliðinn sunnudag. Þar sem enn hafi ekki fengist upplýsingar úr flugrita hafi þau ákveðið að banna flug vélanna innan þeirra lofthelgi í forvarnarskyni.

Bannið verður í gildi þar til meiri upplýsingar berast. Í tilkynningu segir einnig að þau séu í nánu samstarfi við evrópsk flugmálayfirvöld

Tilkynninguna má sjá hér að neðan. 

Fimmtán flugfélög hafa kyrrsett vélar

Stuttu eftir að bresk flugmálayfirvöld tilkynntu að vélarnar væru ekki heimilar innan breskrar lofthelgi tilkynnti norska flugfélagið Norwegian að þau hafi kyrsett 18 slíkar vélar.Greint er frá á VG.no.

Boeing 737 Max8-vélar líka kyrrsettar í Ástralíu og Singapúr. Listinn lengist yfir þá sem hafa sett þær til hliðar. Icelandair er enn að nota sínar. Fréttablaðið greindi frá því í dag að Icelandair sé með tilbúna áætlun ef flugmálayfirvöld ákveða að kyrrsetja þær þrjár vélar sem eru í eigu flugfélagsins.

Sjá einnig: Fjórtán flugfélög hafa kyrrsett Boeing-vélarnar

Flugslysið á sunnudag var annað mannskæða flugslysið þar sem Boeing 737 MAX-vélar átti í hlut á fimm mánuðum. 189 fórust í Indónesíu þegar slík vél hrapaði í haust.

Uppfært: Frönsk flugmálayfirvöld hafa lagt bann við að umræddar flugvélar fari um lofthelgi Frakklands. Sambærilega ákvörðun hafa Þjóðverjar nú tekið.