Bresk yfirvöld hafa brugðist við og lokað á svindlsíðu, hýsta á Íslandi, sem ætluð var til þess að safna upplýsingum um fólk. Svindlið fór þannig fram að fólk fékk smáskilaboð í farsíma frá aðila sem þóttist vera NHS, breska heilbrigðiskerfið, um að það hefði verið útsett fyrir Omíkron smiti og það ætti að bóka PCR-sýnatöku. Fólk ætti að klára ferlið á heimasíðunni mypcr-test.com.

Lénið var stofnað á miðvikudag og voru bresk yfirvöld snögg að bregðast við. Hefur síðan verið tekin niður og vísar hlekkurinn nú á síðu NHS.

Líkt og heilbrigðisyfirvöld á Íslandi sendir NHS smáskilaboð til sjúklinga í Bretlandi, meðal annars vegna Covid-19 faraldursins. Talsmaður heilbrigðisráðuneytisins sagði hins vegar að skráning í sýnatöku myndi aldrei fara fram nema í gegnum opinbert vefsvæði NHS. Fólk þyrfti því að vera á varðbergi og fylgjast með hvaða síðu það væri að fara inn á.

Svindlsíðan var hýst hjá IceNetworks Ltd., skráð til heimilis á Klapparstíg 7 í Reykjavík. Félagið er hins vegar með félagaskráningu í Mið-Ameríkuríkinu Belís. IceNetworks rekur vefhýsingar í gegnum síðu er kallast Orange Website. Stundin greindi frá því í haust að lykilmenn hjá fyrirtækinu væru Aðalsteinn Pétur Karlsson, pókerspilari sem býr í Taílandi, og Finninn Henri Kalle Johannes Vilmi, en nöfnin komu upp í tengslum við Pandóruskjölin svokölluðu, er fjölluðu um aflandsfélög.

Orange Website gerir út á tjáningarfrelsi og að ritskoðun sé ekki stunduð. Fyrirtækið var stofnað í Reykjavík árið 2009 og komst í fréttirnar árið 2014 þegar hryðjuverkasamtökin Íslamskt ríki hýstu síður sínar hjá þeim. Meðal annarra sem hafa nýtt sér þjónustu fyrirtækisins eru nýnasistasamtök, falsfréttasíður og svindlarar.

Árið 2017 fjallaði BBC um Orange Website í tengslum við nýnasista­síðuna The Daily Stormer. Síðunni hafði verið lokað hjá hýsingaraðila í Bandaríkjunum eftir að hent var grín að dauða konu sem mótmælti göngu nasista í Charlottesville í Virginíufylki. Eftir að hafa mistekist að útvega nýja hýsingu í Albaníu og Rússlandi tókst The Daily Stormer að útvega hýsingu á Íslandi.