Bresk yfirvöld hafa bannað ferðalöngum frá Portúgal, 14 löndum Suður-Ameríku og einu Afríkuríki að ferðast til landsins vegna vísbendinga um að nýtt afbrigði COVID-19 sé komið fram í Brasilíu. Bannið tekur gildi í fyrramálið.
Löndin sem bannið tekur til eru Portúgal, Argentína, Brasilía, Bólivía, Grænhöfðaeyjar, Chile, Kólumbía, Ekvador, Franska Gvæjana, Gvæjana, Panama, Paragvæ, Súrínam, Úrúgvæ og Venesúela.
Frá þessu greindi Grant Shapps samgöngumálaráðherra á Twitter. Hann segir þetta gert til að reyna að koma í veg fyrir að afbrigðið berist til landsins. Bannið tekur ekki gildi til breskra og írskra ríkisborgara, sem og þeirra sem hafa dvalarleyfi í Bretlandi. Slíkir ferðalangar þurfa þó að fara í sóttkví í tíu daga ásamt fjölskyldu sinni eftir komu til Bretlands.
Áður höfðu Bretar lokað á komur ferðalanga frá Danmörku og Suður-Afríku vegna nýrra afbrigða COVID-19 sem fundist hafa þar.