Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun síðar í dag kynna tilslakanir á samkomutakmörkunum í Bretlandi en útgöngubann hefur verið í gildi þar í landi frá því í byrjun janúar. Ríkisstjórnin mun funda um málið og hefur verið boðað til blaðamannafundar klukkan 19 að íslenskum tíma.
Að því er kemur fram í frétt BBC um málið verður reglunum aflétt í áföngum þar sem fyrstu afléttingarnar verða í mars en fyrsti áfanginn er í tveimur hlutum og snýr þar að samkomutakmörkunum og skólahaldi. Fjögur skilyrði verða sett í öllum áföngum.
Þannig þarf bólusetningaráætlun yfirvalda að standast, rannsóknir sýna að bóluefnin dragi úr alvarlegum veikindum og andlátum, fjöldi nýrra smita ógni ekki fjölda innlagna á spítala, og ný afbrigði veirunnar ógni ekki afléttingu samkomutakmarkanna.
Fleiri mega koma saman
Til að byrja með munu tómstundir og íþróttir barna sem fara fram utandyra vera leyfilegar á ný auk þess sem tveir mega koma saman í almenningsrýmum frá og með 8. mars. Á sama tíma og skólar opna á ný verður svigrúm inni í reglunum til að gera ráð fyrir sýnatöku og öðru sem gæti komið upp.
Frá og með 29. mars mega síðan allt að sex manns, eða tvö heimili, koma saman utandyra auk þess sem íþróttaraðstöður fullorðna utandyra, til að mynda tennis- og körfuboltavellir, mega opna á ný. Skipulagðar íþróttir barna og fullorðna verða sömuleiðis heimilar.
Þá er einnig gert ráð fyrir því að fólk megi ferðast utan síns svæðis en líklegt er að það verði þó ekki ráðlagt og að mælst verði gegn því að fólk dvelji þar yfir nótt.
Nánar verður farið yfir tilslakanir á blaðamannafundinum en Johnson segir markmiðið vera að koma börnum aftur í skóla og koma ástvinum saman á ný.
Today I’ll be setting out a roadmap to bring us out of lockdown cautiously. Our priority has always been getting children back into school which we know is crucial for their education and wellbeing. We'll also be prioritising ways for people to reunite with loved ones safely.
— Boris Johnson (@BorisJohnson) February 22, 2021