Vísindamenn við Leeds-háskóla koma til Íslands í mánuðinum til að kortleggja víðerni landsins. Að verkefninu standa innlend náttúrverndarsamtök.

Vísindamennirnir munu beita alþjóðlegri aðferð sem hefur einnig verið notuð til að kortleggja víðerni í Skotlandi, fyrir Bandarísku skógræktina og Evrópusambandið.

Markmiðið er að stuðla að vitundarvakningu að sögn Finns Ricart Andrasonar, eins skipuleggjenda. „Það er mikilvægt að skoða þetta í ljósi þess að víðernum fer fækkandi í heiminum. Ísland býr yfir gersemi, sem miðhálendið er, þar sem lítið er af mannvirkjum og miklar óbyggðir. Þetta er eitthvað sem við sem heimssamfélag erum að tapa, og býr Ísland yfir fjársjóði sem við gerum okkur ekki endilega grein fyrir. Markmiðið er að sýna fólki og fræða það um hversu einstök þessi svæði eru.“

Finnur nefnir að nærri helmingur villtasta svæðis Evrópu er á Íslandi, eða um 43 prósent. Þá er kortlagning óbyggðra víðerna á Íslandi lögbundin en bráðabirgðaákvæði í náttúruverndarlögum kveður á um að svo skuli gera.

Finnur Ricart Andrason, einn skipuleggjenda verkefnisins.