Boris Johnson hefur lofað að styðja bæði Finnland og Svíþjóð gegn mögulegri ógn frá Rússum. Hann ferðaðist til beggja landanna í dag til þess að undirrita öryggissamning sem ríkin gerðu. Bæði Finnland og Svíþjóð íhuga umsókn um aðild að NATO. The Guardian greinir frá þessu.
Á blaðamannafundi með Magdalenu Anderson sagði Johnson að gerð og umfang stuðningsins myndi ráðast af því sem Svíþjóð myndi óska eftir, ef kæmi til þeirrar ógnar sem Svíar óttast af Rússum.
Samningarnir sem forsætisráðherrar Bretlands og Svíþjóðar og forseti Finnlands undirrituðu kveða á um að ef annað landanna stæði frammi fyrir ógn eða hamförum myndu þau að beiðni frá viðkomandi landi aðstoða hvert annað á margvíslegan hátt, það gæti falið í sér hernaðaraðgerðir.
Johnson staðfesti á blaðamannafundi með Sauli Niinistö, forseta Finnlands, að löndin myndu aðstoða hvort annað á ýmislegan hátt. „Við munum koma hvort öðru til aðstoðar, þar á meðal með hernaðaraðstoð,“ sagði Johnson.
Rússar hafa hótað alvarlegum afleiðingum fyrir Finnland og Svíþjóð ef þau kjósa að ganga inn í NATO.