Ní­ræð kona frá Coventry í Bret­landi varð í morgun fyrsta manneskjan til að verða bólu­sett gegn CO­VID-19 í Bret­landi en breska lyfja­eftir­litið gaf heil­brigðis­yfir­völdum neyðar­heimild til að hefja bólu­setningar í síðustu viku. Breska heil­brigðis­kerfið hefur nú hafið bólu­setningar­her­ferð þar í landi.

Konan, Margaret Keenan, sagði að það væru for­réttindi að vera sú fyrsta til að vera bólu­sett. „Þetta þýðir að ég geti loksins hlakkað til þess að eyða tíma með fjöl­skyldunni minni og vinum á nýju ári eftir að hafa verið ein­sömul mest megnið af árinu,“ sagði Keenan sem verður 91 árs í næstu viku. „Þetta er besta snemm­búna jóla­gjöf sem ég gæti óskað mér.“

Hafa pantað 40 milljón skammta í heildina

Líkt og greint var frá í síðustu viku voru Bretar þeir fyrstu til að heimila notkun bólu­efnis Pfizer og BioN­Tech en þeir sem eru eldri en 80 ára og þeir sem eru á fram­línunni innan heil­brigðis­kerfisins verða þeir fyrstu til að vera bólu­settir. Mark­miðið er að vernda þá allra við­kvæmustu til að byrja með.

Alls er um að ræða 800 þúsund skammta og verða því 400 þúsund manns bólu­settir á næstu vikum í Bretlandi en gefa þarf tvo skammta af lyfinu með þriggja vikna milli­bili. Fyrir lok mánaðar er gert ráð fyrir fjórum milljón skömmtum til við­bótar en alls hafa yfir­völd í Bret­landi pantað 40 milljón skammta í heildina.

Matt Hancock, heil­brigðis­ráð­herra Bret­lands, sagði í við­tali við BBC í morgun að það væri erfiður vegur fram undan en bólu­efnið væri ljósið í myrkrinu. Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands tók í svipaða strengi og sagðist þakk­látur fyrir alla þá sem komu að ferlinu. „Við munum sigrast á þessu saman,“ sagði John­son.

Önnur bóluefni til skoðunar

Eins og staðan er í dag hafa rúm­lega 1,74 milljón til­felli smits verið stað­fest í Bret­landi og af þeim hafa tæp­lega 62 þúsund ein­staklingar látist úr CO­VID-19. Bresk heil­brigðis­yfir­völd eiga erfitt verk fyrir höndum til að bólu­setja sem flesta. Vonast er til að hægt verði að heimila notkun annarra bólu­efna á næstu vikum.

Þrátt fyrir að Bretar hafi sam­þykkt bólu­efni Pfizer og BioN­Tech hefur það ekki verið sam­þykkt af Lyfja­stofnun Evrópu en stofnunin mun taka á­kvörðun um bólu­efnið fyrir lok mánaðar. Þá eru einnig til skoðunar tvö önnur bólu­efni, annars vegar frá Moderna og hins vegar frá AstraZene­ca.