Ben Wallace varnar­mála­ráð­herra Bret­lands sagði fyrr í dag að ekki verði unnt að hjálpa öllum úr landi sem hafa hjálpað breskum her­mönnum í Afgan­istan. Nú þegar er hætt að flytja fólk að flug­vellinum og rýming á þeirra vegum mun klárast innan nokkurra klukku­tíma, segir Wallace. The Guar­dian greindi frá.

Allt að 1100 Afganir sem unnu sem túlkar eða að­stoðuðu breska her­menn með öðrum hætti munu verða eftir. Wallace segir að þetta fólk fái upp­lýsingar um hvernig það geti sótt um hæli í öðrum löndum og svo komist á­fram til Bret­lands eða lifað undir stjórn Talí­bana.

Þá er talið að um hundrað breskir ríkis­borgarar verði eftir þegar rýming endar, sumir sem hafa á­kveðið að verða eftir sjálf­viljugir, sam­kvæmt Wallace.

Bretar hafa flutt um 16 þúsund Af­gana úr landi frá í apríl. „En eins og ég hef sagt í­trekað seinustu tvær vikur þá er sorg­lega stað­reyndin sú að ekki allir munu komast út,“ sagði Wallace.

Meira en hundrað látnir

Tvær sprengju­á­rásir á al­þjóða­flug­velli Kabúl í gær tóku líf að minnsta kosti 95 al­mennra af­ganskra borgara og þrettán banda­ríska her­manna. Frétta­stofan AP hefur þetta eftir opin­beru starfs­fólki í Afgan­istan og Banda­ríkjunum.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti hefur haldið því fram að Íslamska ríkið í Afgan­istan standi að baki á­rásinni en sá hópur er rót­tækari en Talí­banarnir sem tóku völd fyrir tæpum tveimur vikum. Íslamska ríkið hefur tekið ábyrgð á árásinni á samfélagsmiðlum.

Biden mun samt sem áður ekki fram­lengja dvöl hersins í Kabúl vegna yfir­vofandi hryðju­verka­hættu og stefnir enn á að flytja alla banda­ríska her­menn úr landi fyrir 31. ágúst.

Banda­rískir tals­menn hafa gefið út að yfir hundrað þúsund ein­staklingar hafi verið bjargað úr landinu nú þegar en eftir sitja enn um þúsund banda­rískir ríkis­borgarar og tugir þúsundir Af­ganar sem reynt verður að flytja úr landi áður en loka­fresturinn rennur út.