Í dag verða engar draumaaðstæður á gosstöðvunum, að sögn Birtu Lífar Kristinsdóttur, veðurfræðings hjá Veður­stofu Ís­lands.

„Það er að byrja að rigna núna. Í kvöld verður bara rigning og lélegt skyggni, alveg fram á nótt. Það verður einnig vindasamt í kvöld, 12 til 18 metrar á sekúndu,“ segir hún.

Arfaslakt á sunnudag

Búast má við að fjöldi fólks gangi að gos­stöðvunum um helgina, enda um fyrstu helgina frá upp­hafi eld­gossins að ræða.

Að­spurð um veðrið á gos­stöðvunum um helgina segir Birta það verða skárra á morgun en á sunnudag.

„Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að það verður arfaslakt á sunnu­daginn,“ segir Birta.

„Á morgun, laugardag, verður suð­aust­læg átt, 3 til 8 metrar á sekúndu, það bætir síðan að­eins í vindinn um kvöldið. Það verður skýjað og smá væta,“ segir Birta og bætir við að skyggni gæti orðið slæmt.

„Á sunnu­daginn verður tals­verð úr­koma og 15 metrar á sekúndu,“ bætir hún við.

„Núna í nótt verður hægur vindur, þá gæti mengun farið að safnast í dældir, eitt­hvað sem er alltaf verið að vara við,“ segir Birta.

Hætta af gasmengun lúmsk

Þor­steinn Jóns­son, sér­fræðingur hjá Um­hverfis­stofnun sagði í sam­tali við Frétta­blaðið í gær að með stærra gosi megi búast við meiri mengun í kringum það. Hættan sé því lúmsk.

Á heimasíðu Veðurstofunnar má finna gasdreifingarspá, þar má sjá mynd sem sýnir hvernig mesta mengun dreifist, ásamt veðurspá fyrir gostöðvarnar.

Margir illa búnir í göngu

„Það var oft nóg að gera hjá okkur vegna út­kalla í fyrra en nú horfir í að miklu fleiri heim­sæki eld­stöðvarnar,“ sagði einn á­hafnar­með­lima í þyrlu Land­helgis­gæslunnar í sam­tali við Frétta­blaðið.

Á fyrstu þrettán tímum eld­gossins fékk þyrlan út­kall vegna slasaðs ferða­manns við gos­stöðvarnar.

Núna í nótt bættist við í fjölda slasaðra við gos­stöðvarnar. Þrír voru fluttir slasaðir frá þeim í nótt. Lög­reglan á Suður­nesjum segir þó nokkuð marga vera illa búna fyrir gönguna, enda um 5 til 6 klukku­stunda göngu­leið að sögn Björgunar­sveitarinnar Þor­björns.