Frakkar hafa lagt hald á breskan togara sem var staddur í land­helgi þeirra við veiðar án leyfis. Auk þess hafa þeir sektað annan togara en deilur landanna um fisk­veiðar eftir Brexit fara nú stíg­vaxandi.

Franska sjávar­út­vegs­ráð­herrann Annick Girardin segir að togurunum hafi í nótt verið gert við­vart af land­helgis­gæslunni að þeir væru við veiðar án leyfis, er þeir voru undan ströndum Le Havre.

Togaranum siglt í franska höfn

Að sögn ráðu­neytisins gat út­gerð togarans Cornelis Gert Jan, MacDuff Shell­fish of Scot­land, ekki fært sönnur fyrir því að hún hefði leyfi til veiða hörpu­disks í franskri lög­sögu. Því var togaranum gert að sigla til Le Havre og liggur þar við höfn. Skip­stjórinn á yfir höfði sér á­kæru og hugsan­lega verður aflinn gerður upp­tækur. Út­gerð hins togarans var sektuð þar sem skip­verjar urðu ekki strax við kröfu land­helgis­gæslunnar um að fá að fara um borð.

Í gær sagði Clement Beaune, Evrópu­mála­ráð­herra Frakka, „að svara þyrfti af krafti þar sem það virðist það eina sem stjórn­völdum í Bret­landi skilja“. Þeir hafa hótað hefndar­að­gerðum í garð Breta, sem þeir segja ekki standa við á­kvæði Brexit-sam­komu­lagsins sem veita á­kveðnum fjölda franskra fisk­veiði­manna heimild til veiða í breskri lög­sögu. Bret­land og eyja Jer­s­ey neituðu í síðustu viku tugum franskra togara um veiði­leyfi, með þeim rökum að full­nægjandi gögn hefðu ekki fylgt um­sóknunum.

Clement Beaune, Evrópu­mála­ráð­herra Frakk­lands.
Fréttablaðið/EPA

Breski innan­ríkis­ráð­herrann Priti Patel segir hald­lagningu togarans „von­brigði“ og um­hverfis­ráð­herrann Geor­ge Eustice kallar eftir stillingu. Hann sagði á breska þinginu að hann hefði rætt við full­trúa Evrópu­sam­bandsins vegna fisk­veiði­deilunnar þar sem hann lagði á­herslu á að „draga úr spennu.“

Deilur Breta og ESB hafa haft slæm áhrif á sjávarútveg landsins.
Fréttablaðið/EPA

Nú standa yfir við­ræður milli Breta og fram­kvæmda­stjórnar Evrópu­sam­bandsins um fisk­veiði­heimildir. Eftir margra vikna við­ræður hafa Bretar gefið fjölda leyfa til skipa frá ríkjum sam­bandsins til veiða en Frakkar segjast hafa „rétt á fleirum“, að sögn Gabriel Attal tals­manns frönsku ríkis­stjórnarinnar.

Þau ætla að banna breskum skipum að leggjast að á­kveðnum höfnum og auka tolla­eftir­lit á vörum frá Bret­landi frá og með 2. nóvember, náist ekki sam­komu­lag sem þau sætta sig við.

Þetta væri ekki á það bætandi fyrir Breta, sem glímt hafa við vöru- og elds­neytis­skort að undan­förnu í kjöl­far Brexit. Auk þess er skortur á starfs­fólki, raf­orku­verð hækkar og margir eru orðnir á­hyggju­fullir fyrir jólunum. Frakkar hafa léð máls á því að leggja á frekari refsi­að­gerðir, þar sem „ekki væri undan­skilið“ að tækju til orku­við­skipta.