Breski lögmaðurinn Timothy Otty mun flytja mál Íslands fyrir efri deild Mannréttindadómstóls Evrópu 5. febrúar næstkomandi ásamt Ríkislögmanni. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins úr íslenska stjórnkerfinu en einnig er greint frá þessu á vefsíðu Blackstone Chambers í London.

Otty hefur töluverða reynslu af málflutningi fyrir alþjóðlegum dómstólum. Hann hefur flutt og unnið mál gegn dauðarefsingu í Tyrklandi, um réttindi fanga sem haldið var í Guantanamo-búðunum og um réttindi samkynhneigðra í ríkjum Breska samveldisins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Otty verið ráðinn til að vinna með Ríkislögmanni að málinu en ekki hefur verið staðfest hvort hann muni flytja málið einn í Strassborg. Heimildir blaðsins herma að hvorki hafi verið eining um þessa ráðstöfun innan stjórnkerfisins né ríkisstjórnarinnar en ákvörðunin er dómsmálaráðherra sem ber ábyrgð á málinu þótt Embætti ríkislögmanns heyri undir forsætisráðuneytið.

Þetta er ekki fyrsti erlendi lögmaðurinn sem kemur að málsvörn íslenska ríkisins í Landsréttarmálinu en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir staðfesti við Fréttablaðið í nóvember síðastliðnum að norski lögfræðingurinn Thomas Horn veitti Ríkislögmanni ráðgjöf í málinu bæði vegna greinargerðar ríkisins og málflutnings. Hún áréttaði þá að Ríkislögmaður hefði enn forræði á málinu. Ekki náðist í Áslaugu Örnu við vinnslu þessarar fréttar.

otty.jpg

Timothy Otty hefur töluverða reynslu af málflutningi fyrir alþjóðadómstólum.

Greinargerðum bæði ríkisins og kæranda hefur verið skilað til dómsins en skömmu fyrir jól sendi dómstóllinn málsaðilum viðbótarspurningar sem óskað er að svarað verði við málflutninginn. Meðal annars er spurt um lista yfir 24 umsækjendur sem þáverandi dómsmálaráðherra kvaðst, í svörum sínum um málið á Alþingi, hafa valið dómaraefni sín úr, í stað þess að skipa þá fimmtán sem dómnefndin taldi hæfasta. Vildi ráðherra með vísan til þessa sýna fram á að hún hefði fullnægt rannsóknarskyldu sinni er hún breytti út af niðurstöðu dómnefndar.

Dómstóllinn spyr hvort dómarinn hafi unnið lista með 24 nöfnum í aðdraganda skipunarinnar. Hafi ráðherrann gert það er óskað afhendingar á honum og sönnunar á því hvenær hann var búinn til. Þá er einnig óskað eftir upplýsingum um hvaða rök ráðherra færði fyrir vali á dómaraefnunum fimmtán úr hópi þeirra 24 sem voru á lista hennar.

Auk spurninga um meintan lista ráðherra er óskað upplýsinga um endurupptökuheimildir íslenskra dómstóla og hvort gildandi málsmeðferðarheimildir veiti heimild til endurupptöku sakamála í kjölfar niðurstöðu dómsins í Strassborg.

Þá er einnig óskað eftir túlkun ríkisins á bráðabirgðaákvæði laga um dómstóla um skipun Landsréttar í fyrsta sinn og aðkomu Alþingis að því.

Spurt er hvort synjun Alþingis á skipun tiltekins dómaraefnis hefði leitt til nýrrar málsmeðferðar ráðherra um öll dómaraefnin eða hvort ráðherra hefði í slíku tilviki þurft að leggja til annað dómaraefni í stað þess sem hafnað var.