Ráðherrar í ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, róa nú að því öllum árum að sannfæra þingmenn breska þingsins um að samþykkja Brexit samning ríkisstjórnarinnar en einungis örfáir dagar eru í að atkvæðagreiðsla fari fram um samninginn, eða næstkomandi þriðjudag. 

Þannig hóf forsætisráðherrann daginn á því að rita pistil í dagblaðið Sunday Express þar sem hún hvatti þingmenn til þess að kjósa Brexit samninginn sinn og sagði annað „ófyrirgefanleg svik gegn trausti á lýðræðinu.“ 

Sjá einnig: „Ófyrirgefanleg svik gegn trausti á lýðræðinu okkar“

Á sama tíma er ljóst að stjórnarandstaðan brýnir hnífana en flestir stjórnmálaskýrendur í Bretlandi telja ólíklegt að samningurinn verði samþykktur og undirbýr Verkamannaflokkurinn nú vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni eins fljótt og auðið er verði samningnum hafnað á þriðjudag. 

Æ fleiri innan Verkamannaflokksins telja að flokkurinn eigi að styðja aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um málið en enn sem komið er er stefna flokksins að boða til nýrra þingkosninga og endursemja um Brexit.

Brexit-málaráðherrann Stephen Barclay segir í samtali við BBC að ríkisstjórnin sé undirbúin undir atburðarásina sem geti farið af stað verði samningnum hafnað. Hann hvetur á sama tíma þingmenn til þess að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 2016.

Aðspurður hvað ríkisstjórnin muni gera verði samningurinn felldur, segir Barclay að hann búist við því að „neðri deildin myndi styðja einhverskonar samning svipaðan þessum.“

Miklar vangaveltur eru um atburðarás næstu daga en breskir miðlar hafa greint frá orðrómum þess efnis í dag og í gær að þverpólitísk samstaða ríki meðal fjölda þingmanna um að taka Brexit málin úr höndum ríkisstjórnarinnar, fari svo að samningi May verði hafnað á þriðjudag.