Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hefur tilkynnt að bankinn muni stíga skref til þess að róa markaðinn eftir að skattalækkanir bresku ríkisstjórnarinnar ollu því að sterlingspundið féll og lántökukostnaður hækkaði talsvert.

Bankinn varaði við því að ef hverfull markaðurinn myndi halda áfram í því ástandi sem hann er núna, gæti það endað á því að ógna fjármálastöðugleika alls Bretlands. Einnig var tilkynnt að bankinn myndi fjárfesta í ríkisverðbréfum til að „endurheimta eðlilegar markaðsaðstæður.“

Sterlingspundið náði nýju lágmarki á mánudaginn þegar fjármálaráðherra Bretlands tilkynnti fjármálaáætlun sína. Sterlingspundið hefur aldrei verið jafn lágt gagnvart Bandaríkjadollaranum.

Skattalækkanir fjármálaráðherra Bretlands kosta ríkisstjórnina 45 milljarða punda, aðgerðin verður fjármögnuð með lántökum en ákvörðunin er sögð vera þáttur í áætlun ríkisstjórnarinnar um að efla hagvöxt.

Varað hefur verið við því að vextir gætu hækkað eftir að lántökukostnaður hækkaði, en það gæti leitt til þess að hundruð veðsettra eigna gætu horfið af markaðinum.

Bankinn sagði fjárfestinguna í ríkisverðbréfum einungis vera tímabundna, og einungis gerða til þess að minnka áhyggjur fjárfesta. Samhliða fjárfestingunni verður seinkað áformum um áætlun þeirra um að selja önnur ríkisverðbréf.

Áform ríkisstjórnarinnar um skattalækkanirnar hafa verið gagnrýndar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði við því í gær að áformin væru enn líklegri til þess að kynda undir framfærslukostnaðarkreppunni sem riðið hefur yfir Bretland á síðustu misserum.