Breski flugherinn er staddur hér á landi og mun sinna loftrýmisgæslu NATO fyrir Ísland næstu vikur.

Um er að ræða sögulegan viðburð en síðast þegar breski flugherinn kom hingað með svo marga liðsmenn var um hernám að ræða í síðari heimsstyrjöldinni árið 1940. Flugherinn verður á landinu í tæpan mánuð.

Peter Lisney, upplýsingafulltrúi breska flughersins, gantaðist með þetta þegar blaðamaður Fréttablaðsins heyrði í honum hljóðið.

„Allir Íslendingar sem ég hef hitt frá því að við lentum hafa bent mér á að síðasta heimsókn okkar hingað hafi verið hernám“ segir Peter og bætir við að allir segi þetta með bros á vör.

Breski flugherinn mætti til landsins með fjórar Typhoon orrustuþotur.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Okkur var ekki boðið á þeim tíma en okkur var heldur ekki hafnað,“ segir Peter og hlær. Í þetta sinn hefur ríkisstjórn Íslands boðið breska flughernum formlega að koma hingað til landsins.

„Við erum í sjöunda himni yfir því að fá að heimsækja Ísland og vernda það. Þegar við erum ekki að fljúga þá langar okkur að ferðast um landið og læra meira um sögu og menningu Íslands. Það er mikilvægt fyrir okkur.“

20 manna teymi sér um að viðhalda Typhoon orrustuþotunum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Í för með flughernum eru 120 liðsmenn og fjórar Eurofighter Typhoon FGR4 orrustuþotur, sem er oftast þekktar sem Typhoon vélar. Þá þarf að minnsta kosti 20 manns til að halda flugmanninum á lofti; frá verkfræðingum til sérfræðinga sem sjá um viðhald og allt sem snertir flugrafeindabúnað.

Um er að ræða fyrst flokk og einnig elsta flokk breska flughersins sem kennir sig við bæinn Lossiemouth. Flugsveitarforinginn er Mark Baker.

Breski sendiherrann Michael Nevin og Mark Baker flugsveitarforingi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Orrustuþoturnar munu fljúga um allt land að sinna loftrýmisgæslu. Aðspurður hvort vélarnar geymi vopn, segir Peter að þoturnar fljúgi einungis með flugskeyti ef lýst er yfir hættuástandi. Annar sinna þær einungis eftirliti.

„Þetta er sannarlega sögulegur viðburður og við erum ótrúlega ánægð að íslenska ríkið hafi boðið okkur hingað,“ segir Peter og bætir við að Bretar og Íslendingar þurfi að endurtaka fótboltaleik sem fór fyrst fram fyrir 75 árum.

„Ég held að stór hluti af liðsmönnunum séu þó enn með horn í síðu Íslendinga eftir að fótboltalið ykkar sigraði England á EM. Þannig við ætlum að efna til fótboltaleiks þann 6. desember klukkan 20:20. Árið 1944 keppti breski flugherinn við íslensku landhelgisgæsluna í fótbolta, fyrir 75 árum. Þá vann Bretland bikarinn og yfirgaf svo landið. Nú ætlum við að taka leikinn aftur.“

Forsíður fjölmiðla eftir hernám Breta árið 1940.
timarit.is

Myndbandið er frá breska flughernum.