Þing­menn breska þingsins höfnuðu rétt í þessu til­lögu frá Verka­manna­flokknum og ein­staka þing­mönnum innan Í­halds­flokksins um að komið yrði í veg fyrir út­göngu landsins úr Evrópu­sam­bandinu án samnings, að því er fram kemur á vef BBC.

Þar kemur fram að til­lögunni hafi verið hafnað naum­lega með 309 at­kvæðum gegn 298 at­kvæðum en hefði til­lagan verið sam­þykkt hefði það gefið þing­heimi réttinn til þess að koma í veg fyrir út­göngu landsins úr Evrópu­sam­bandinu án samnings þann 31. októ­ber næst­komandi þegar stefnt er að út­göngu.

Úr­slitum úr at­kvæða­greiðslunni var fagnað inni­lega af þing­mönnum Í­halds­flokksins en for­maður Verka­manna­flokksins Jeremy Cor­byn, sagði við til­efnið að þing­mennirnir myndu ekki fagna með sama hætti í septem­ber.

Í til­kynningu frá breska for­sætis­ráðu­neytinu kemur fram að það hefði gefið hættu­legt for­dæmi að veita þing­mönnum svo mikil völd yfir Brexit stefnu ríkis­stjórnarinnar.

Upp­runa­lega var stefnt að út­göngu landsins þann 29. mars síðast­liðinn en eftir að breska þingið hafnaði út­göngu­samningi ríkis­stjórnarinnar í þrí­gang komust for­svars­menn Evrópu­sambsandsins og Bret­land sér saman um að fresta út­göngunni um sjö mánuði. Enn er ó­víst hver mun taka við af Theresu May sem for­sætis­ráð­herra landsins og hver stefna Bret­lands verður í Brexit á næstu mánuðum.