Ákvörðun mannanafnanefndar um að samþykkja ekki nafnið Lúsífer hefur nú vakið athygli hjá breska ríkisútvarpinu, BBC, en þann fjórtánda janúar síðastliðinn úrskurðaði nefndin að beiðni um nafnið Lúsífer hafi verið hafnað.
„Þar sem nafnið Lúsífer (kk.) er eitt af nöfnum djöfulsins telur mannanafnanefnd ljóst að það geti orðið nafnbera til ama,“ er meðal þess sem sagði í úrskurðinum en í umfjöllun BBC kemur fram að mannanafnanefnd hefði enga samúð með djöflinum.
Lucifer áður lagt fram
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mannanafnanefnd hafnar nafni djöfulsins en síðastliðinn nóvember hafnaði mannanafnanefnd nafninu Lucifer. Nafninu var þá hafnað af sömu ástæðu auk þess sem að ritháttur nafnsins væri ekki í samræmi við almennar ritreglur þar sem bókstafurinn C telst ekki til íslenska stafrófsins.
Svo virðist samt vera að sú staðreynd að nafnið sé eitt af nöfnum djöfulsins hafi verið næg ástæða til þess að hafna nafninu þrátt fyrir að rithætti nafnsins væri breytt.
Úrskurðinn má sjá hér fyrir neðan:
