Jeremy Hunt fjármálaráðherra Bretlands kynnti fjárlög landsins fyrir neðri deild breska þingsins í hádeginu í gær. Um er að ræða fyrstu fjárlög ríkisstjórnar Rishi Sunak sem tók við embætti í lok október síðastliðinn.
Hunt sagði efnahag Bretlands á uppleið og verðbólgu landsins á niðurleið. Bretar væru að snúa við efnahagslægri lægð síðustu mánaða. Fjármálaráðuneytið býst við því að verðbólga landsins verður komin niður í 2,9% fyrir árslok.
Það vakti hins vegar mikla kátínu meðal þingmanna þegar Hunt ákvað að slá skjaldborg um kranabjórinn í Bretlandi er hann tilkynnti að skattar og álögur á bjór munu ekki hækka frá og með 1. ágúst á þessu ári. Hann kallaði aðgerðirnar „aftöppunar – aðstoð“ og bætti við að þetta væri ein af þeim aðgerðum sem Bretland gæti ráðist í þar sem landið væri ekki lengur í Evrópusambandinu.
„Frá og með 1. ágúst verða skattar á kranabjór á krá 11 pennyjum lægri en í matvöruverslunum,“ sagði Hunt. Áfengisgjaldið verður síðan fryst sem hluti af „Nýju-Brexit-kráar-tryggingunni.“
„Breska ölið er kannski volgt en áfengisgjaldið á kranabjór er frosið,“ sagði Hunt við og mátti heyra mikið kurr og hlátur í þingsalnum. Hunt sagði bresku kránna vera hluti af menningararfi þjóðarinnar en aðgerðirnar væru einnig hluti af stærra verkefni til að mæta verðlagshækkunum í landinu.
‘British ale is warm, but the duty on a pint is frozen.’
— LBC (@LBC) March 15, 2023
Chancellor @Jeremy_Hunt elicits laughter in the Commons while delivering the Spring Budget, stating the duty on draught products in pubs will be 11p lower than duty in supermarkets in new ‘Brexit pubs guarantee'. pic.twitter.com/8j021p9Qfv
Lengi kallað eftir sambærilegum aðgerðum hérlendis
Veitingahúsa- og kráareigendur á Íslandi hafa ítrekað kallað eftir sambærilegum aðgerðum hérlendis. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur einnig sagt að breyta þurfi áfengisgjöldum fyrir veitingahús.
„Við þurfum líka að styrkja veitingahúsin, þau eiga að auka fjölbreytnina og bæta menninguna. Við höfum öll notið góðs af því að fá fleiri ferðamenn og þetta gerir lífið einfaldlega skemmtilegra að sjá veitingastaði og matsölustaði þrífast. Ef við erum með of há áfengisgjöld þá er minna svigrúm eftir til rekstrarins,“ sagði Bjarni í beinni útsendingu á vef Sjálfstæðisflokksins 10. júní 2021.
Um áramótin tók gildi 7,8 prósenta hækkun á áfengisgjaldi. Í samtali við Fréttablaðið í ársbyrjun sögðu veitingamenn og framleiðendur hækkunina í ár koma til með að hafa íþyngjandi áhrif nema stjórnvöld grípi inn í.

„Hefur spurst ágætlega vel út að áfengisverð á Íslandi sé galið“
Ólafur Örn Ólafsson veitingamaður sagði að hann væri leiður yfir því að horfa fram á tímabil mikilla verðhækkana.
„Okkar álagning á áfengi er nánast eingöngu skatttengd. Ef við kaupum vínflösku á tvö þúsund krónur þá er skatturinn í kringum 70 prósent. Það mun núna taka við tímabil hækkana sem er mjög leiðinlegt af því við vitum að við erum að selja dýra vöru,“ sagði Ólafur í janúar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar tekur í sama streng en að hans mati er mikilvægt að horfa hátt áfengisgjald á veitingahús frá tveimur sjónarhólum annars vegar frá sjónarhóli veitingageirans og hins vegar ferðaþjónustunnar.
„Þetta spyrst og hefur spurst ágætlega vel út um veröldina að áfengisverð á Íslandi sé algjörlega galið. Þannig það hefur alveg klárlega áhrif,“ sagði Jóhannes í viðtali við Fréttablaðið í janúar.

Rökin fyrir háu áfengisgjaldi hefur lengi verið lýðheilsa en Jóhannes sagði þau rök ekki halda vatni þegar það kemur að veitingageiranum.
„Þetta snýst um að takmarka aðgengi almennings að áfengi en áfengi sem er keypt á veitingastöðum er ekki aðalvandamálið í því samhengi. Þar eru í stórum hluta erlendir ferðamenn kaupendur. Þannig þessi forvarnarrök eiga ekki við á sama hátt,“ segir Jóhannes að lokum.
Engar aðgerðir fyrir veitingamenn hafa verið boðaðar. Ísland á Evrópumetið í áfengissköttum samkvæmt samanburði Spirits Europe, Evrópusamtaka áfengisframleiðenda, og eykur heldur forskot sitt á nágrannalöndin.
„Þessar álögur eru löngu komnar út fyrir allt sem getur kallast sanngirni fyrir neytendur og fyrirtæki á áfengismarkaði,“ sagði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda í febrúar.
Flest Evrópuríki héldu sköttum á áfengi óbreyttum um áramótin.
„Af þeim tíu ríkjum sem breyttu sköttum hækkaði Ísland áfengisskatta langmest miðað við verðbólgu,“ bætti Ólafur jafnframt við.
