Vísbendingar eru fyrir því að stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar sem kom upp í Bretlandi sé banvænna en önnur afbrigði veirunnar. Frá þessu greindi forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, á blaðamannafundi í dag.
Hann tók þó skýrt fram að bóluefnin sem er verið að nota gegn veirunni virðast virka gegn þessu afbrigði eins og öðrum.
Afbrigðið virðist vera um 30 prósent banvænna en önnur afbrigði veirunnar. Ef þúsund 60 ára myndu greinast með gamla afbrigðið myndu er talið að tíu gætu látist, ef miðað er við nýja afbrigðið myndu líklega 13 láta lífið.
Vísindamenn hafa skoðað ýmis gögn og ráðfært sig við bresku ríkisstjórnina. Á vef BBC segir að um fyrstu niðurstöður sé að ræða og þær séu ekki staðfestar. Niðurstöður rannsókna hafa þó áðu bent til þess afbrigðið dreifist hraðar en önnur.
Þar var fyrst greint í Kent í september og hefur frá því orðið ráðandi afbrigði veirunnar í Bretlandi og Norður-Írlandi. Það hefur einnig greinst í 50 öðrum löndum.
„Auk þess að dreifast hraðar þá virðast vera sönnunargögn fyrir því að nýja afbrigðið – afbrigðið sem var fyrst greint í London og suðaustri – megi tengja við hærri dánartíðni,“ sagði Johnson á blaðamannafundinum í dag.
Hann sagði að áhrif þess væri helsta ástæða þess að heilbrigðiskerfið í Bretlandi, NHS, væri undir svo miklu álagi.
Gögnin sem vísindamenn hafa skoðað eru frá fólki sem dáið hefur í kjölfar þess að hafa greinst með nýja afbrigðið og eldri. Sir Patrick Vallance einn helsti sérfræðingur breskra yfirvalda sagði að tengingin væri ekki enn „sterk“ og ítrekaði að enn væri mikil óvissa í kringum greininguna.
„Við þurfum að vinna þau frekar til að skilja þau betur, en það veldur augljósum áhyggjum að það sé hækkun á dánartíðni og meiri smithættu,“ sagði Vallance.
Síðasta sólarhringinn hafa verið skráð 1.401 andlát í Bretlandi vegna kórónuveirunnar. Alls hafa um 95 þúsund einstaklingar látist sem voru greind með kórónuveiruna í það minnsta 28 dögum fyrir andlátið.