Ní­tján ára gömul bresk stúlka, sem var sak­felld fyrir að bera ljúg­vitni um að henni hafi verið nauðgað, hefur á­frýjað máli sínu. Stúlkan segir lög­regluna í Kýpur hafa neytt hana til að breyta vitnis­burði sínum og vill nú hreinsa nafn sitt.

Þá lýsir hún því að hafa verið yfir­heyrð svo klukku­tímum skipti án þess að lög­fræðingur væri til staðar. Lög­reglan hafi þrýst á hana að falla frá á­sökunum sínum og hún hafi ekki hlotið sann­gjarna með­ferð.

Sakaði tólf drengi um hóp­nauðgun

Á síðasta ári sakaði hún tólf ísraelska drengi um að hafa nauðgað sér á hóteli á Kýpur. Drengirnir voru á aldrinum fimm­tán til á­tján ára gamlir og lýstu allir yfir sak­leysi sínu í málinu.

Frétta­blaðið greindi frá málinu í byrjun júlí en þá kom fram að drengirnir tólf hefðu verið hand­­teknir í kjöl­far frá­­sagnar konunnar hjá lög­­reglunni. Drengirnir voru úr­­­skurðaðir í átta daga gæslu­varð­hald og flugu fjöl­­skyldu­­með­limir þeirra meðal annars til Kýpurs í kjöl­farið. Sagði móðir eins drengjanna að hún tryði því að þeir væru sak­lausir.

Sögð ljúga um nauðgunina

Í kjöl­far á­sakananna var stúlkan á­kærð fyrir að falskan fram­burð og játaði hún fyrir rétti að hafa logið um á­rásina. Stúlkan flúði aftur til Bret­lands í síðustu viku eftir að hún hlaut fjögurra mánaða fangelsis­dóm.

Í dag greindi hún frá því að hún hygðist á­frýja dómnum. Lög­fræðingar stúlkunnar segja hana hafa hlotið ó­sann­gjarna með­höndlun fyrir rétti í saman­burði við ísraelsku drengina.