Nítján ára gömul bresk stúlka, sem var sakfelld fyrir að bera ljúgvitni um að henni hafi verið nauðgað, hefur áfrýjað máli sínu. Stúlkan segir lögregluna í Kýpur hafa neytt hana til að breyta vitnisburði sínum og vill nú hreinsa nafn sitt.
Þá lýsir hún því að hafa verið yfirheyrð svo klukkutímum skipti án þess að lögfræðingur væri til staðar. Lögreglan hafi þrýst á hana að falla frá ásökunum sínum og hún hafi ekki hlotið sanngjarna meðferð.
Sakaði tólf drengi um hópnauðgun
Á síðasta ári sakaði hún tólf ísraelska drengi um að hafa nauðgað sér á hóteli á Kýpur. Drengirnir voru á aldrinum fimmtán til átján ára gamlir og lýstu allir yfir sakleysi sínu í málinu.
Fréttablaðið greindi frá málinu í byrjun júlí en þá kom fram að drengirnir tólf hefðu verið handteknir í kjölfar frásagnar konunnar hjá lögreglunni. Drengirnir voru úrskurðaðir í átta daga gæsluvarðhald og flugu fjölskyldumeðlimir þeirra meðal annars til Kýpurs í kjölfarið. Sagði móðir eins drengjanna að hún tryði því að þeir væru saklausir.
Sögð ljúga um nauðgunina
Í kjölfar ásakananna var stúlkan ákærð fyrir að falskan framburð og játaði hún fyrir rétti að hafa logið um árásina. Stúlkan flúði aftur til Bretlands í síðustu viku eftir að hún hlaut fjögurra mánaða fangelsisdóm.
Í dag greindi hún frá því að hún hygðist áfrýja dómnum. Lögfræðingar stúlkunnar segja hana hafa hlotið ósanngjarna meðhöndlun fyrir rétti í samanburði við ísraelsku drengina.